Ísland er efst á lista Alþjóðaefnahagsráðsins (e. World Economic Forum) yfir kynjajafnrétti fyrir árið 2012, og það í tólfta sinn. Í öðru og þriðja sæti listans sitja Finnland og Noregur, Nýja-Sjáland í því fjórða og Svíþjóð í fimmta sæti.
Í neðstu fimm sætunum sitja Sýrland, Pakistan, Írak, Jemen og í Afganistan, sem var í fyrsta sinn með í mælingu WEF á kynjajafnrétti, mælist misrétti mest.
Samkvæmt skýrslu WEF hefur heiminum farið aftur á vegferðinni að jafnréttin kynjanna í heimsfaraldri kórónuveirunnar. Þannig metur ráðið það svo að kynjajafnrétti verði náð á heimsvísu eftir 135,6 ár. Samkvæmt skýrslu síðasta árs var talið að því yrði náð eftir 99,5 ár og hefur því þannig seinkað um heila kynslóð.
Er þetta helst rakið til þess að heimsfaraldurinn hafi haft meiri áhrif á þau störf sem konur eru líklegri til þess að vinna, auk þess sem þær upplifi aukið álag innan heimilisins.
Þetta er í fimmtánda sinn sem Alþjóðaefnahagsráðið gefur út skýrslu um kynjajafnrétti en munur á jafnrétti karla og kvenna er skoðaður út frá fjórum sviðum: efnahagslegri þátttöku, tækifærum til menntunar, valdeflingar í stjórnmálum og heilbrigði. Skýrslan í ár tekur til 156 ríkja sem var gefin einkunn þar sem 1 stig táknar fullt jafnrétti. Ísland situr í efsta sæti listans með 0,892 stig og bætir við sig 0,016 stigum frá síðustu skýrslu.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sendi af þessu tilefni bréf til Klaus Schwab, stofnanda Alþjóðaefnahagsráðsins, þar sem hún þakkaði ráðinu fyrir mikilvægt starf í þágu jafnréttis og fór yfir lykilþætti í árangri Íslands sem er öflug kvennahreyfing og kerfisbundnar aðgerðir stjórnvalda í þágu jafnréttis, að því er fram kemur í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins.
Heimurinn er kominn skemmst á veg hvað varðar pólitíska valdeflingu kvenna, en jafnrétti kynjanna í menntun og heilsu telst vel á veg komið, þótt síðustu skrefin séu þung. Talið er að jafnrétti í menntun og heilsu verði náð eftir 14,5 ár, en 145,5 ár í stjórnmálum.
Fréttin hefur verið uppfærð.