Þeir sem eru skikkaðir í farsóttarhús eiga rétt á að bera sitt mál undir dómstóla og vænta úrskurðar líkt og gildir um gæsluvarðhald en allur kostnaður af slíkum málum fellur á ríkissjóð. Þetta segir Berglind Svavarsdóttir, formaður Lögmannafélags Íslands.
„Samkvæmt lögunum er hægt að óska eftir úrlausn dómstóla við þessa íhlutun [í frelsi fólks] og það er náttúrulega atriði sem hver og einn hlýtur að skoða vel og vandlega. Þetta er svipað og á við þegar um lögræðissviptingar er að ræða,“ segir hún.
Þeir sem verði fyrir réttindaskerðingunni eigi rétt á að bera slík mál undir dómstóla á kostnað ríkisins.
Er alveg ljóst að allir eiga rétt á dómsúrskurði þegar þeir eru skikkaðir í farsóttarhús?
„Mér skilst það eftir því sem mér er best kunnugt um. Ég segi þetta svo sem með öllum fyrirvörum, þetta er allt saman dálítið nýtt fyrir okkur öllum og hefur ekki reynt á þessi úrræði,“ segir Berglind.
Frá og með morgundeginum verða þeir sem koma frá rauðum svæðum skv. reglugerð heilbrigðisráðherra skyldaðir í fimm daga dvöl í farsóttarhúsi. Berglind leggur áherslu á að aðgerðin feli í sér mikla íhlutun í frelsi fólks og til þess þurfi skýra lagaheimild:
„Þetta er gríðarlega mikil íhlutun í frelsi fólks og það þarf að gæta að öllum grundvallarmannréttindum. Það má jafna þessu við fangelsisvist, það er verið að skikka fólk á ákveðinn stað og það virðist ekki skipta máli hvort um sé að ræða íslenska ríkisborgara eða ríkisborgara annarra landa,“ sagði hún í samtali við mbl.is.
Að lokum segir Berglind mikilvægt að hver og einn staldri við og skoði hvort beita eigi réttinum til þess að fara með mál sitt fyrir dóm sé hann skikkaður í farsóttarhús.