Fólk mætt fyrir klukkan sex í morgun

Töluverður fjöldi fólks var mættur fyrir klukkan sex í morgun.
Töluverður fjöldi fólks var mættur fyrir klukkan sex í morgun. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fólk var byrjað að streyma að gosstöðvunum í Geldingadölum fyrir klukkan sex í morgun. Leiðin var opnuð klukkan sex. Bjarney Annelsdóttir yfirlögregluþjónn segir að dagurinn byrji vel og að fólk virðist ánægt með þennan þjónustutíma. 

Rútuferðir frá Grindavík að gönguleiðinni hófust klukkan átta í morgun og hvetur lögreglan til þess að fólk nýti sér þær frekar en að keyra að gönguleiðinni. 

„Þetta byrjar ansi hratt, en við vonum að þetta dreifist betur yfir daginn. Dagurinn í gær var góður samanborið við daginn á undan,“ segir Bjarney. Hún segir að svipaður fjöldi hafi lagt leið sína að gosinu á þriðjudag og miðvikudag en fjöldinn hafi dreifst betur yfir daginn á miðvikudag og því hafi viðbragðsaðilar ráðið mun betur við aðstæður þá. 

Lokað klukkan 18

Lokað verður inn á gossvæðið klukkan 18 í kvöld og hefst rýming svæðisins klukkan 22, en áætlað er að viðbragðsaðilar ljúki þar störfum fyrir miðnætti.

Í dag er spáð vestan 8-13 m/s og dálítilli rigningu eða súld af og til. Dregur úr vindi og styttir upp síðdegis. Hiti 7 til 8 stig. 

Mælst er til þess að fólk búi sig vel fyrir gönguna að gosinu og taki regnföt með sér. Betra er að velja gönguskó en strigaskó og mannbroddar eru nauðsynlegir í gönguna. Athygli er vakin á bröttum hlíðum á leið til og frá gossvæðinu. 

Í tilkynningu frá lögreglu er hvatt til þess að fólk taki andlitsgrímu með og noti hana þegar ekki er unnt að tryggja tvo metra í næsta mann. Þá er hvatt til þess að forðast hópamyndanir og taka lítinn sprittbrúsa með sér til að geta sótthreinsað hendur eftir að hafa tekið í reipi í bröttustu brekkunum. 

Nauðsynlegt er að vera vel búinn í gönguna að eldgosinu …
Nauðsynlegt er að vera vel búinn í gönguna að eldgosinu og mælst er til þess að fólk taki regnfötin með í dag. Kristinn Magnússon
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert