Ísland er ekki lengur eina græna landið á korti Sóttvarnastofnunar Evrópu. Nýtt kort var gefið út í dag, 1. apríl. Ekkert land er grænt í álfunni þótt hluti Noregs haldi enn sínum græna lit.
Ísland er nú appelsínugult en í því felst að nýgengi veirunnar, smit á hverja 100 þúsund íbúa síðustu tvær vikur, sé 50 eða hærra. Tölurnar eru fyrir vikur 11 og 12, eða 15. til 28. mars.
Til að skilgreinast sem grænt land þurfa lönd að vera með minna en 25 smit á hverja 100 þúsund íbúa og hlutfall jákvæðra sýna vera undir 4% á tveggja vikna tímabili. Nýgengi á Íslandi var 27,4 á tímabilinu, en inni í því eru bæði smit innanlands og á landamærum.
Sóttvarnastofnun Evrópu heldur utan um fjölda smita í ríkjum Evrópusambandsins og evrópska efnahagssvæðisins og Bretland því ekki lengur talið með.
Samkvæmt tölum á Covid.is frá því á þriðjudag var nýgengi smita innanlands 19,1 en 11,2 á landamærum eða samanlagt 30,3 og hefur því hækkað lítillega frá því tölur Sóttvarnastofnunarinnar voru teknar saman.