Konan sem dvelur nú í sóttvarnahúsi og lætur reyna á rétt sinn til þess að vera látin laus, gerði það einkum af þeim sökum að henni blöskraði aðbúnaður í húsinu.
Þetta segir Ómar R. Valdimarsson, lögmaður viðkomandi, í samtali við mbl.is, en hann undirbýr nú kröfu til héraðsdóms þess efnis að fallið verði frá því að láta skjólstæðing hans sæta sóttkví í sóttvarnahúsi.
Ekki er hægt að opna glugga í herberginu og engar svalir eru þar heldur, auk þess sem ekki var skýrt út fyrir konunni áður en ferðalag hennar hófst, að hún þyrfti að dvelja í sóttvarnahúsi í fimm daga eftir komu til landsins.
Þá var hópi fólks, sem dvelur einnig í sóttvarnahúsinu, hleypt í göngutúr um svæðið, á meðan aðrir fengu ekki að fara út að sögn Ómars.
Ómar segir í samtali við mbl.is hæpið að reglugerð heilbrigðisráðherra, um skyldu til dvalar í sóttvarnahúsi, eigi sér lagastoð:
„Ég er ekki alveg að sjá að það sé lagaheimild fyrir setningu hennar. Að setja svona mikið inngrip í líf fólks í reglugerð finnst mér heldur hæpið.“
Hann bætir við að að sjálfsögðu vilji menn ekki að veira sé í samfélaginu:
„Ég vil ekki að fólk sé að smitast, rétt eins og aðrir, en tilgangurinn má ekki helga meðalið.“
Hann væntir þess að í málinu muni meðalhófsreglan, sem kveður á um að beita beri vægasta úrræðinu þegar réttindi borgaranna eru skert, vega þyngst ásamt lögmætisreglu.
Kveður síðarnefnda reglan meðal annars á um að reglur, þar sem réttindi borgara eru skert, skuli settar með heimild í lögum.
Uppfært:
Konan hefur ákveðið að draga kröfu sína til baka. Þó hefur annar skjólstæðingur Ómars, sem dvelur nú í sóttvarnahúsinu, ákveðið að láta reyna á rétt sinn og hefur krafa þess efnis verið send til héraðsdóms.