„Sóttkvíargúlag í Þórunnartúni“

Fosshótel Reykjavík verður farsóttarhús frá og með deginum í dag.
Fosshótel Reykjavík verður farsóttarhús frá og með deginum í dag. mbl.is/Árni Sæberg

„Ég dreg í efa, eins og mjög margir lögmenn hafa bent á, að þetta standist nánari skoðun og myndi vilja fá dómstóla til að fara yfir þær reglur og þær lagaheimildir sem eru fyrir þessum ákvörðunum stjórnvalda og meta hvort þær standist skoðun,“ segir Ómar R. Valdimarsson lögmaður á Lögmannsstofunni Valdimarsson.

Stofan auglýsti í gær á facebooksíðu sinni að hún byðist til að reka mál þeirra sem vildu láta reyna á lagaheimild þvingaðrar sóttkvíar á sóttkvíarhóteli, þeim að kostnaðarlausu.

„Ef einhver vill láta reyna lagaheimild á þvingaðari sóttkví í gúlagi stjórnvalda, við komuna til landsins, býðst lögmannsstofan til þess að reka málið fyrir viðkomandi án þess að rukka hana/hann um krónu,“ segir í facebookfærslu lögmannsstofunnar.

„Ég held að það sé verið að sneiða ansi hressilega að persónufrelsi einstaklinga með þessum aðgerðum,“ segir Ómar í samtali við mbl.is. 

„Það er náttúrlega verið að svipta einstaklinga frelsi með þessum aðgerðum og þá eiga viðkomandi skýran rétt samkvæmt stjórnarskránni til þess að bera þessa frelsissviptingu undir dómstóla eða dómara.“

Ómar R. Valdimarsson, lögmaður.
Ómar R. Valdimarsson, lögmaður. Ljósmynd/Ásgeir Ásgeirsson

Lagaheimildin óskýr

„Ákvæðið eins og það er sett fram í sóttvarnalögum sem heimilar stjórnvöldum að grípa til þessara aðgerða er svo óskýrt að mér finnst hæpið að það sé hægt að byggja svona mikið inngrip í líf fólks á þessari lagaheimild,“ segir Ómar og bætir við:

„Svo til viðbótar er verið að þvinga fólk til þess að greiða fyrir þessar aðgerðir, sem er sérkennilegt.“

Ómar segir þá meðalhófsregluna vera krossbrotna. „Ef stjórnvöld gætu náð fram sama árangri með öðrum vægari aðgerðum þá ber þeim að beita því úrræði, það er að segja þau geta náð fram sóttkví með því að skylda fólk til að fara í sóttkví heima hjá sér. Það væri þá meðalhóf að skipa hlutum með þeim hætti frekar en að þvinga alla saman á eitthvert eitt sóttkvíargúlag í Þórunnartúni.“

Rann blóðið til skyldunnar

Ómar segir ástæðuna fyrir því að lögmannsstofan hafi ákveðið að bjóða upp á málareksturinn, öðrum að kostnaðarlausu, einfaldlega hafa þá að honum hafi runnið blóðið til skyldunnar.

„Ég held að þeir sem að vilja láta reyna á þetta ættu að geta leitað til hvaða lögmanns sem er, ég get ímyndað mér að það séu allir lögmenn sem vilja fá endurskoðun dómstóla á þessu,“ segir Ómar og bætir við að hann sé nokkuð klár á því að allir lögmenn, sem hafi áhuga á þessu lögfræðilega sviði, myndu reka slíkt mál fyrir engan eða mjög lítinn pening.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert