Það er ný saga og gömul að fólk flykkist að þar sem tök eru á að komast í tæri við eldgos. Stórbrotið sjónarspil náttúrunnar heillar, en getur haft hættur í för með sér, umfram það sem fylgir hamförunum sjálfum. Því er brýnt að fólk sé vel búið og fari varlega við gosstöðvar.
Á öðrum degi í Heklugosi 1947 myndaðist bílaþvaga á Hellisheiði, eins og það var orðað í Morgunblaðinu sunnudaginn 30. mars. Þar segir meðal annars: „Skömmu eftir að frjettist um gosið í gær, var eins og eitthvað æði gripi bæjarbúa og allir vildu ólmir komast upp á Kambabrún og helst lengra, til að sjá náttúruhamfarirnar. Byrjuðu bílar að streyma úr bænum, og svo margir, að illmögulegt var að fá bíla á bifreiðastöðvum, en á Hellisheiði lenti alt í óreiðu vegna bílaþvögunnar.
Maður, sem var að koma úr Skíðaskálanum, komst hingað til bæjarins klukkan sjö eftir rúmlega tveggja tíma ferð, en Agnar Kofoed-Hansen, lögreglustjóri, tjáði blaðinu, að um níu leytið hefðu um 500 bílar verið á heiðinni. Mátti heita að umferðin hefði alveg stöðvast um tíma - vildu sumir komast upp eftir en aðrir til Reykjavíkur - og varð loks að senda menn á vettvang til að greiða úr flækjunni.
Reyndar sögðu flestir, sem upp á Kambabrún fóru, að þaðan væri í rauninni ekkert meira að sjá en hjeðan úr Reykjavík - aðeins einn geysistóran gosstrók, en engar eldglæringar. Voru menn aðvaraðir við því í gærkvöldi að fara austur nema í nauðsynlegum erindum.“
Eldgosið á Fimmvörðuhálsi hafði sannarlega aðdráttarafl og á baksíðu Morgunblaðsins mánudaginn 29. mars 2010 sagði frá því að útihátíðarstemning hefði verið við gosstöðvarnar helgina á undan og ekki allir verið vel búnir til gönguferða. Sumir hafi verið í gallabuxum, strigaskóm og ekki skjólgóðum utanyfirfatnaði.
Þar var haft eftir björgunarsveitarmönnum að á þriðja þúsund manns hafi helgina á undan lagt leið sína að gosstöðvunum á Fimmvörðuhálsi. Þá var stöðugur straumur bíla inn Fljótshlíð alla helgina og á afrétt sveitarinnar, en á móts við Húsadal í Þórsmörk sást vel til eldgossins. Áætlað er að átta til tíu þúsund manns hafi farið um þær slóðir á laugardag.
Flestir sem þar fóru um voru á góðum jeppum. Dæmi voru þó um að fólk væri á mjög vanbúnum fólksbílum en til að komast inn á afréttinn þarf að fara um grófan veg og yfir óbrúaðar ár.
Þá hafði sölutjald verið sett upp við Fljótsdal, innsta bæ í Fljótshlíð þar sem boðið var upp á kaffi og snúða og annað brauðmeti.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 3. apríl.