„Mæling var gerð á hrauninu í dag, 5. apríl, með loftmyndatöku úr flugvél. Ekki fékkst áreiðanlegt mat á hraunrennsli í eldri gígunum en nýja sprungan skilaði sjö rúmmetrum á sekúndu,“ segir í tilkynningu frá Jarðvísindastofnun.
Í tilkynningunni segir einnig að heildarrennslið sem sé þá Geldingadalir auk hinnar nýju sprungu sé metið á um 10 rúmmetra á sekúndu í dag. Þetta þýði þá að gosið hefur vaxið.
Meðalhraunrennsli milli mælinga fæst með því að kortleggja hraunið og reikna rúmmál þess á hverjum tíma.
Þá segir á vef Jarðvísindastofnunar:
„Hraunrennslið er lítið í samanburði við flest önnur gos, en ákaflega stöðugt. Það er um einn þriðji þess sem kom að meðaltali kom upp fyrstu 10 dagana á Fimmvörðuhálsi vorið 2010, sem var þó lítið gos. Þá er rennslið í Geldingadölum aðeins 2% af því sem var í Holuhrauni fyrstu vikur gossins. Rennslið er svipað og var að meðaltali í Surtsey eftir að hraungos hófst þar í apríl 1964 til gosloka í júní 1967.“
Ljósmyndarar mbl.is fóru að gosstöðvunum í dag og fönguðu á myndir nýju sprunguna og hið litla en ákaflega stöðuga hraunrennsli úr sprungunni og inn í Merardali.