Helga Vala Helgadóttir, formaður velferðarnefndar og þingmaður Samfylkingarinnar, segir að vænlegast væri fyrir heilbrigðisráðherra að leita stuðnings meðal flokka í stjórnarandstöðu fyrir lagabreytingum sem renna stoðum undir skyldudvöl í sóttkvíarhúsi.
Ljóst væri að ágreiningur innan ríkisstjórnarinnar – andstaða hluta Sjálfstæðisflokks við aðgerðirnar – væri slíkur. Brynjar Níelsson þingmaður flokksins hefur lýst því yfir að hann muni aldrei styðja umræddar lagabreytingar og þá hefur Sigríður Andersen, fyrrverandi dómsmálaráðherra, verið gagnrýnin á sóttvarnahúsin.
Héraðsdómur Reykjavíkur komst að þeirri niðurstöðu í gær að ekki væri heimild í lögum til að skylda fólk til dvalar þar, nokkuð sem kom Helgu Völu ekki á óvart en hún hafði lýst efasemdum sínum um að ákvæði sóttvarnalaga væru nógu víðtæk, bæði þegar lögin voru endurskrifuð í desember og aftur í síðasta mánuði þegar ákveðið var að beita úrræðinu.
Svandís segist hins vegar ætla að bíða eftir niðurstöðu Landsréttar, þangað sem úrskurðurinn hefur verið kærður.
Helga Vala segir það sitt mat að hagsmunir í því að landsmenn geti lifað sem eðlilegustu lífi innanlands vegi þyngra en hagsmunir ferðalanga í þessu máli og því rétt að samþykkja lög sem heimila gjörninginn.
Því hefur verið haldið fram að skyldudvöl í sóttvarnahúsi myndi ekki samræmast öðrum lögum og ákvæðum stjórnarskrár jafnvel þótt sérstök lög yrðu sett utan um dvölina. Sú gagnrýni snýr bæði að meðalhófi og jafnræði ferðamanna og annarra sem þurfa að dvelja í sóttkví.
Í úrskurði héraðsdóms er ekki tekin afstaða til þess. „Úrskurðurinn er mjög afmarkaður og snýst um þessa lagaheimild,“ segir Helga Vala og bendir enn fremur á að í úrskurðinum sé meðal annars tekið fram að hafið sé yfir vafa að tilefni stjórnvalda til að grípa til sóttvarnaaðgerða sé brýnt.
Hún telur því aðeins standa á ráðherra að leggja fram lögin. Gangi það ekki eftir geti meirihluti velferðarnefndar gert það, en til þess þyrftu stjórnarliðar að taka höndum saman eða þá leita til minnihlutans. „Boltinn er hjá ráðherra,“ segir hún.