Alþingi samþykki nauðsynlegar sóttvarnir á landamærum

Ragna Sigurðardóttir, forseti Ungra jafnaðarmanna.
Ragna Sigurðardóttir, forseti Ungra jafnaðarmanna. Ljósmynd/Hari

Ungir jafnaðarmenn krefjast þess að Alþingi verði kallað saman án tafar svo renna megi skýrum lagastoðum undir nauðsynlegar sóttvarnir á landamærum. Taka þeir undir ákall sóttvarnalæknis og Læknafélags Íslands þess efnis.

Í yfirlýsingu frá hreyfingunni segir að vinnubrögð ríkisstjórnarinnar undanfarin misseri hafi einkennst af flumbrugangi og samráðsleysi við sóttvarnayfirvöld, sem grafið hafi undan sátt og samstöðu í samfélaginu.

Alvarlegast sé nýlegur dómur héraðsdóms um ólögmæti skyldudvalar í sóttvarnahúsi sem skrifist alfarið á ríkisstjórnina og tregðu stjórnarmeirihlutans til að binda nauðsynlegar valdheimildir í lög.

Kalla eftir myndun starfsstjórnar

„Á meðan ríkt hefur víðtæk samstaða meðal landsmanna um nauðsynlegar sóttvarnir hafa þingmenn Sjálfstæðisflokksins hamast gegn sóttvarnareglum og ráðherrar flokksins brotið þær. Sundurlyndi og ábyrgðarleysi þingmanna Sjálfstæðisflokksins má ekki standa sóttvörnum í landinu fyrir þrifum,“ segir í yfirlýsingunni.

Enn fremur ítreka Ungir jafnaðarmenn ákall sitt frá því í desember um að mynduð verði starfsstjórn ábyrgari flokka fram að næstu þingkosningum um stærstu hagsmunamál þjóðarinnar: öflugar sóttvarnir, öflun bóluefna og markvissari stuðning við atvinnuleitendur og þær atvinnugreinar sem verst hafa orðið úti í heimsfaraldrinum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka