Bent á að tilkynna mótmæli á Covid-spjalli

Farþegar í Leifsstöð. Myndin er úr safni.
Farþegar í Leifsstöð. Myndin er úr safni. Árni Sæberg

Fjölskylda sem lætur nú reyna á mál sitt fyrir dómstólum vegna skyldudvalar í sóttvarnahúsi fékk engar upplýsingar um hvernig hún gæti fengið ákvörðuninni hnekkt en var beðin að senda beiðni gegnum spjallrás á heimasíðu covid.is, sem lá niðri yfir páskana. 

Er upplýsingagjöfinni talið alvarlega ábótavant af hálfu hennar, að því er fram kemur í úrskurði héraðsdóms í málinu, sem féll á þriðjudag og var birtur á vef dómstólsins í dag. Héraðsdómur dæmdi vistunina ólögmæta en sóttvarnalæknir hefur kært úrskurðinn til Landsréttar. Úrlausnar er að vænta í dag.

Talið nauðsynlegt að kanna mál hvers og eins

Komst dómurinn að þeirri niðurstöðu að tilvik fjölskyldunnar félli ekki undir skilgreiningu á sóttvarnahúsi, sem er í sóttvarnalögum lýst sem stað þar sem einstaklingur, sem á ekki samastað á Íslandi eða getur af öðrum sökum ekki eða vill ekki einangra sig í húsnæði á eigin vegum, getur verið í sóttkví eða einangrun vegna gruns um að hann sé ekki smitaður af farsótt ef staðfest er að svo sé.

Dómurinn tekur ekki afstöðu til þess hvort heimilt sé að skylda fólk í sóttvarnahús með þeim hætti sem reglugerðin kveður á um, með lagasetningu.

Fjölskyldan flaug frá Frankfurt á föstudag og var send í …
Fjölskyldan flaug frá Frankfurt á föstudag og var send í hópbifreið í sóttvarnahús þrátt fyrir mótmæli. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kemur fram að líta verði svo á að undir þeim kringumstæðum sem skapast hafa í samfélaginu sé nauðsynlegt að fara yfir mál hvers og eins ferðamanns sem dvelst í sóttvarnahúsi, kjósi viðkomandi að binda enda á dvöl sína þar.

„Þannig megi vænta þess að kanna þurfi hvort viðkomandi búi við þær aðstæður sem greinir í skilgreiningu laganna um sóttvarnahús eða lýsi sig jafnvel andvígan því að sæta sóttkví, en þá verði ekki séð að hann geti krafist þess að breyting verði á dvalarstað hans eins og sakir standa,“ segir í úrskurðinum. Af þessu fæst séð að dómurinn tekur ekki afstöðu til þess að slík lagasetning brjóti í bága við stjórnarskrá.

Ekki tekin afstaða til mögulegs brots á Barnasáttmála

Kom fjölskyldan til landsins 2. apríl frá Frankfurt eftir að hafa ferðast frá heimili sínu í Frakklandi rétt við landamæri Þýskalands. Þrátt fyrir mótmæli var henni gert að fara með hópferðabifreið til Reykjavíkur í sóttvarnahús en fjölskyldan gerir kröfu um að klára sóttkví í sumarbústað sem hún hefur til umráða.

Í kröfum fjölskyldunnar er vistunin talin fela í sér hugsanlegt brot á Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og alþjóðlegum réttindum barna með því að taka ekki tillit til hagsmuna þarna eða líðanar barna með ráðstöfuninni, þar sem börn voru á meðal vistaðra. Tók dómurinn ekki sérstaka afstöðu til þess en segir í dóminum að einungis sé deilt um lögmæti ákvörðunar sóknaraðila.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert