Flokkarnir ekki á einu máli um sóttvarnahús

Skiptar skoðanir eru meðal þingmanna um lagasetningu sem heimila myndi …
Skiptar skoðanir eru meðal þingmanna um lagasetningu sem heimila myndi skyldudvöl í sóttvarnahúsi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Skiptar skoðanir eru innan þingflokkanna um hvort rétt sé að setja lög sem myndu renna lagastoð undir reglugerð heilbrigðisráðherra um skyldudvöl í sóttvarnahúsi. Heimildamaður mbl.is segir að innan Sjálfstæðisflokksins séu til að mynda skiptar skoðanir.

Ljóst er að margir þingmenn innan flokksins eru ekki hlynntir slíkri lagasetningu og telja að skortur sé á upplýsingum sem ákvörðunin byggist á. Hefur Sigríður Á. Andersen þar verið einna mest áberandi en hún sat í velferðarnefnd þegar sóttvarnalögin voru tekin fyrir.

Willum Þór Þórsson, þingflokksformaður Framsóknar.
Willum Þór Þórsson, þingflokksformaður Framsóknar. mbl.is/Sigurður Bogi

Þingflokkurinn hefur ekki fundað um málið en mun líklega gera svo þegar úrskurður Landsréttar liggur fyrir og heilbrigðisráðherra hefur ákveðið hvort hann hyggist leggja fram nýtt frumvarp að sóttvarnalögum.

Framsóknarmenn hníga í átt að lagasetningu

Þá hefur heilbrigðisráðuneytið lýst því yfir, í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins, að dvöl í sóttvarnahúsi sé besta leiðin til að draga úr útbreiðslu veirunnar og verður því að teljast sennilegt að ráðherrann beiti sér til þess að setja lög sem heimili slíkt. Samkvæmt heimildum mbl.is er þingflokkurinn nokkuð samstiga í þeim efnum.

Þingflokkur Framsóknar er almennt hlynntur lagasetningunni, að sögn Willums Þórs Þórssonar þingflokksformanns. Nauðsynlegt sé að aðgerðunum sé tryggð lagastoð til þess að tryggja sóttvarnir og myndi hann sjálfur samþykkja frumvarpið verði það lagt fram. mbl.is hefur þó ekki náð í Sigurð Inga Jóhannsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.

Inga Sæland formaður Flokks fólksins.
Inga Sæland formaður Flokks fólksins. mbl.is/Arnþór

Samfylking, Flokkur fólksins og Viðreisn hlynnt

Helga Vala Helgadóttir, formaður velferðarnefndar og þingmaður Samfylkingar, sagði í samtali við mbl.is að hún teldi að lögin ættu að fela í sér skýrari reglur en hún ætlaði að treysta Þórólfi til þess að meta aðgerðir. Ungir jafnaðarmenn hafa einnig sett þrýsting á þingflokkinn þess efnis að samþykkja lög sem heimiluðu sóttvarnarráðstafarnirnar.

Flokkur fólksins myndi styðja frumvarp sem heimilaði sóttvarnahúsið í þeirri mynd sem reglugerðin setti fram að sögn Ingu Sæland, formanns flokksins. Segir hún afstöðu flokksins algjörlega skýra  löggjöfin þyrfti að gera sóttvarnayfirvöldum kleift að beita þeim aðgerðum sem þörf sé á í faraldrinum.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Viðreisn vill sjá útfærslu heilbrigðisráðherra

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, segir í samtali við mbl.is að þingflokkurinn muni taka afstöðu til frumvarpsins verði það lagt fram: „Við þurfum að gæta að því að það sé ekki gengið á grundvallarpinsipp eins og mannréttindi,“ segir hún og nefnir í því samhengi að flokkurinn hafi ekki stutt ákvæði um útgöngubann.

Flokkurinn styðji sóttvarnaaðgerðir og að sóttvarnalæknir hafi þau tæki sem hann þarf til þess að halda faraldrinum í skefjum en ríkisstjórnin þurfi fyrst að vinna heimavinnuna sína. „Ráðherra og framkvæmdarvaldið ber ábyrgð á reglugerðinni, það er ekki sóttvarnalæknis að svara fyrir hana,“ segir hún.

Halldóra Mogensen þingmaður Pírata.
Halldóra Mogensen þingmaður Pírata. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Píratar og Miðflokksmenn mótfallnir 

Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata, sagði í samtali við mbl.is í gær að Píratar myndu ekki styðja lög sem heimiluðu skyldusóttkvína sem kveðið var á um í reglugerð heilbrigðisráðherra. 

Réttast væri að fara vægari leiðir sem tækju mið af meðalhófi – nefndi hún í því samhengi að vægari leiðir hefðu ekki verið reyndar til hlítar en ýmislegt kæmi til greina, til dæmis ökklaband, sem myndi gefa til kynna ef brotið yrði gegn sóttkví.

Anna Kolbrún Árnadóttir, þingmaður Miðflokksins, segir flokkinn ekki hlynntan því að skylda fólk í sóttavarnahús með nýjum sóttvarnalögum. Tók Bergþór Ólason ekki jafndjúpt í árinni en sagðist fyrir sitt leyti ekki hlynntur lagasetningunni.

Anna Kolbrún Árnadóttir þingmaður Miðflokksins.
Anna Kolbrún Árnadóttir þingmaður Miðflokksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert