Fimm kórónuveirusmit sem greindust utan sóttkvíar í gær má rekja til vinnustaðar í Mýrdalshreppi. Þetta segir Björn Ingi Jónsson, verkefnastjóri almannavarna á Suðurlandi, í samtali við mbl.is.
Smitin eru rakin til Íslendings, sem kom til landsins á dögunum, en sá hafði áður greinst með kórónuveiruna og þurfti því ekki að sæta sóttkví við komuna. Maðurinn greindist síðan aftur með veiruna.
Að sögn Björns Inga er ekki vitað hvenær hann smitaðist og því óvíst hvort hann hafi borið smitið með sér til landsins eða smitast hér á landi.
Farþegar sem hafa fengið veiruna og eru með mótefni þurfa ekki að fara í sóttkví við komuna til landsins. Þeir þurfa hins vegar að fara í eina skimun á Keflavíkurflugvelli en það er gert til að reyna að koma í veg fyrir að fólk beri veiruna með sér. Brögð eru að því að ósmitaðir beri veiruna milli manna í nefkokinu.