Snerta ekki lengur sama kaðalinn

Fólk á leiðinni í átt að gossvæðinu.
Fólk á leiðinni í átt að gossvæðinu. mbl.is/Íris Jóhannsdóttir

Fólk sem fer að gosstöðvunum þarf ekki lengur að snerta kaðalinn sem var í brekku skammt frá eldgosinu í Geldingadölum og smithætta stafaði af. Ástæðan er sú að gönguleið A hefur verið breytt og nær hún núna einnig að svæðinu í Meradölum.

Lokið var við að stika gönguleiðina í gærkvöldi en hætt var við að stika nýja leið að gosstöðvunum.

Bogi Adolfsson, formaður Þorbjarnar.
Bogi Adolfsson, formaður Þorbjarnar. mbl.is/Sigurður Bogi

„Það er þægilegra að hafa þetta bara einfalt,“ segir Bogi Adolfsson, formaður björgunarsveitarinnar Þorbjarnar frá Grindavík. Hann segir auðvelt að rata hina endurbættu leið A. Hún er einum og hálfum kílómetra lengri en sú fyrri. Hann bætir við að ef gasmökkur berst í átt að gönguleiðinni verði svæðinu einfaldlega lokað.

Bogi segir að vel hafi gengið á gossvæðinu í dag og engin örtröð hafi verið af fólki. Flestir hafi verið vel búnir en inn á milli hafi komið þangað fólk sem var ekki nógu vel gallað og var því bent á það.

mbl.is/Kristinn Magnússon

Langheppilegasta leiðin

Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi Slysavarnafélagsins Landsbjargar, segir að hópur frá björgunarsveitunum hafi farið í vettvangsferð og metið að leið A væri langheppilegasta leiðin að gossvæðinu. Hún væri eins örugg og hægt er og með ágætt útsýni yfir nýjustu sprungurnar sem hafa myndast. Hann segir gönguleiðina vera vel merkta og langgáfulegast sé fyrir fólk að fara eftir henni.

Davíð Már segir að dagurinn hafi verið hefðbundinn á gosstöðvunum og allt gengið stóráfallalaust fyrir sig.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert