Hópsmitið sem kom upp í Mýrdalshreppi tengist afbrigði kórónuveirunnar sem hefur ekki sést hérlendis áður.
Þessu greindi Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir frá í Morgunútvarpinu á Rás 2.
Smitið tengist manneskju sem sýktist af Covid-19 í annað sinn en slíkt er afar gjaldgæft.
„Ég vona að þetta sé bara stakt og einstakt tilfelli, að við förum ekki að sjá nokkuð svona lagað því það setur hlutina í uppnám og við þurfum þá vera með nýja nálgun,“ sagði hann og bætti við: „Við þurfum að vera á varðbergi og það taka sýni af fólki með vottorð á landamærunum er algjörlega nauðsynlegt.“
Hann sagði smittölur gærdagsins líta betur út en í fyrradag þegar 11 smit greindust en var ekki með nákvæmar tölur. Hann sagði að smit væri úti í samfélaginu en að það væri ekki mikið.
Einnig nefndi hann að kórónuveirusmit séu enn að greinast hjá grunnskólabörnum á höfuborgarsvæðinu eftir að hópsmit komu upp í nokkrum skólum fyrir páska.
Þórólfur er að vinna að minnisblaði til heilbrigðisráðherra varðandi næstu skref á landamærunum. Í samtali við mbl.is greindi Kjartan Hreinn Njálsson, aðstoðarmaður landlæknis, frá því að það verði klárað fyrir vikulok.