Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur afhent velferðarnefnd Alþingis gögn sem nefndin kallaði eftir, er varða ákvarðanatöku stjórnvalda um sóttvarnir. Þetta gerði hún nú síðdegis.
Hún segir við mbl.is að ekki sé venjan að slík gögn fari fyrir augu annarra en þeirra sem í ríkisstjórn sitja, en í þessu tilfelli hafi gögnin átt erindi við almenning og því segist hún telja rétt að afhenda þau velferðarnefnd.
„Það er búið að afhenda þau,“ segir Svandís um gögnin umtöluðu. „Það var gert núna síðdegis og alveg skilyrðislaust.“
Svandís segir að ný reglugerð um komufarþega á landamærum Íslands, sem tekur gildi nú á miðnætti, sé nánast óbreytt komin frá Þórólfi Guðnasyni sóttvarnalækni, nema að tvennu leyti. Tillögur Þórólfs um að hækka sektir vegna brota á reglunum annars vegar og herða eftirlit með þeim hins vegar eru ekki á forræði Svandísar.
„Ég sendi bréf áfram um þau mál,“ segir Svandís, til ríkislögreglustjóra vegna herts eftirlits og ríkissaksóknara vegna hækkunar sekta.
Í nýrri reglugerð er ekki kveðið á um að skylda skuli fólk í farsóttarhús, eigi það kost á dvöl í húsnæði í eigin eigu og ekki innan um aðra sem ekki eru í sóttkví. Sú reglugerð gengur skemmra en sú sem tók gildi 1. apríl og dæmd var ólögmæt af Héraðsdómi Reykjavíkur á páskadag.
Spurð hvers vegna ráðist hafi verið í gerð nýrrar reglugerðar í stað þess að sníða lögin utan um fyrri fyrirætlanir stjórnvalda um heimkomusóttkví segist Svandís ekki útiloka að það verði gert.