Rafskútuleigan Hopp stefnir á, til að byrja með, að vera með 200-300 rafskútur á leigu á landsbyggðinni. Þetta segir Sæunn Ósk Unnsteinsdóttir, framkvæmdastjóri Hopp á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við mbl.is.
Líkt og mbl.is greindi frá fyrr í vikunni mun rafskútum Hopp fjölga úr 300 í 1.200 í apríl. Í dag eru rúmlega 1.000 rafskútur frá Hopp komnar á göturnar en Hopp hefur nýverið hafið starfsemi í Kópavogi og í Garðabæ og í dag mættu rafskúturnar frá Hopp í Hafnarfjörðinn. Nú væri því hægt að hoppa frá Granda til Hafnarfjarðar.
Jafnframt stendur til að bæta við þjónustusvæðum víða á landinu, til að mynda á Akureyri og í Vestmannaeyjum, en að sögn Sæunnar býður engin önnur leiga upp á rafskútuleigu á landsbyggðinni.
Auk þess eru nýju rafskúturnar með ýmsum nýjum eiginleikum sem ekki hafa sést áður á rafskútunum frá Hopp. Til dæmis er hægt að hlaða símann, skúturnar eru með stefnuljós ásamt því að þær eru með öflugri mótor.
Sæunn segir rosalega vel tekið í skúturnar og voru til að mynda kl. 17 í dag komnar yfir 1.000 ferðir af hoppi á höfuðborgarsvæðinu.
„Við mælum alla virkni og fylgjumst með notkun í gegnum appið okkar og það er búið að taka alveg rosalega vel í okkur í bæði Kópavogi og Garðabæ,“ segir Sæunn og bætir við að strax sé kominn fjöldi ferða í Hafnarfirði í dag.
Aðspurð segir Sæunn Hopp greinilega anna eftirspurn. „Erum í rauninni að svara eftirspurn; svara þessu millibili sem fólk er að leita eftir til þess að geta valið sér fjölbreyttari og umhverfisvænni ferðamáta.“
„Hopp er ekki bara skemmtun, eins og þetta er nú skemmtilegt, heldur er þetta gríðarleg mikilvægt samgöngutæki. Þetta er orðið svo vinsæll ferðamáti. Fólk sem býr miðsvæðis og bara fólk almennt vill fjölbreytileika og að geta valið sér hvernig það ferðast. Þú getur núna í raun næstum hoppað þangað sem þú þarft að fara á höfuðborgarsvæðinu þannig að ég tel okkur vera mikilvægan hluta samgönguflórunnar í rauninni,“ segir Sæunn og bætir við:
„Við drífum allt fyrirtækið út frá núll útblæstri, notumst aðeins við rafmagnsbíla í rekstrinum og það er markmið okkar að fólk þurfi ekki að reiða sig á einkabílinn heldur hafi fjölbreytta samgöngumáta að velja úr.“