Mikil greining og vinna fór fram í heilbrigðisráðuneytinu áður en reglugerð um sóttkvíarhótel, sem Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi ólöglega fyrr í vikunni, var gerð.
Þetta kom fram í máli Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra eftir ríkisstjórnarfund í morgun.
Í Morgunblaðinu í dag kom fram að svo virðist sem enginn hafi leitt hugann sérstaklega að fullnægjandi lagastoð reglugerðarákvæðanna eða meðalhófsreglu fyrr en degi fyrir ríkisstjórnarfund 30. mars, þar sem að öllum líkindum var talsvert spurt um einmitt þau atriði.
„Við vinnum okkar vinnu vel í heilbrigðisráðuneytinu og höfum sett tugi reglugerða síðan þessi faraldur byrjaði. Við vinnum það á grundvelli greinargerða og gagna en líka á grundvelli funda í stærri og minni stíl. Það eru margir fundir á dag og hafa verið núna í 14 mánuði. Við undirbúum okkar ákvarðanir eins vel og nokkurs er kostur,“ segir ráðherra spurð um frétt Morgunblaðsins.
Ný reglugerð um tilhögun sóttkvíar og heimasóttkvíar tekur gildi á miðnætti. Í henni eru skýrari kröfur gerðar um skilyrði fyrir heimasóttkví varðandi húsnæði og umgengnisreglur.
Hún segist ekki finna fyrir minna trausti innan ríkisstjórnarinnar eða VG eftir dóm héraðsdóms í byrjun vikunnar.
„Ég finn alveg rosalega mikið traust,“ segir Svandís en hún segir enn fremur að Íslendingar séu mjög heppnir með sóttvarnalækni og að hann hafi sýnt ótrúlegt þolgæði í gegnum faraldurinn allan.
Núverandi samkomutakmarkanir gilda til 15. apríl og vonast margir eftir góðum fréttum varðandi afléttingar. Svandís segist aðspurð ekki geta sagt til um hvað verði í næstu viku en hins vegar séu alltaf einhverjar góðar fréttir í faraldrinum:
„Til að mynda var stærsti bólusetningadagurinn okkar í gær,“ segir Svandís en alls voru á sjötta þúsund bólusettir í gær. Hún segir bólusetningar halda áfram af krafti á næstu dögum og vikum en til að mynda er von á fyrsta skammti af bóluefni Janssen í næstu viku. Engar frekari fregnir eru af bóluefni Spútnik, annað en óformlegar viðræður.