„Stjórnarskrá lýðveldisins og skuldbindingar íslenska ríkisins á sviði mannréttinda byggjast meðal annars á því að stjórnvöld verði að hafa lagaheimild til að skerða frelsi borgaranna.“ Á þessum orðum hefst yfirlýsing frá stjórn Dómarafélags Íslands. Er þar brugðist við gagnrýni á nýlegan úrskurð héraðsdóms um ólögmæti skyldusóttkvíar í sóttvarnahúsi.
Þá segir að í réttarríki sé það hlutverk sjálfstæðra dómstóla að hafa eftirlit með því að stjórnvöld virði þessa skyldu sína.
„Málefnaleg gagnrýni á störf dómstóla á alltaf rétt á sér. Óvarlegar fullyrðingar á borð við að dómstólar gangist fyrir aðför að sóttvörnum á óvissu- og hættutímum eru ekki í samræmi við efnisatriði málsins og til þess fallnar að grafa undan stoðum réttarríkisins,“ segir að lokum í yfirlýsingunni.
Síðustu daga hefur úrskurður héraðsdóms verið gagnrýndur af ýmsum. Þannig sagði Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir úrskurðinn „óheppilegan út frá sóttvarnasjónarmiðum“ og Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, lýsti yfir vonbrigðum með hann. Reynir Arngrímsson, formaður Læknafélags Íslands, sagði jafnframt að „úrskurður héraðsdóms er alvarleg aðför að sóttvörnum landsins“.