„Grafa undan stoðum réttarríkisins“

Héraðsdóm­ur Reykjavíkur dæmdi fyrr í vikunni dvöl tólf ein­stak­linga í …
Héraðsdóm­ur Reykjavíkur dæmdi fyrr í vikunni dvöl tólf ein­stak­linga í sótt­varna­húsi ólög­mæta. mbl.is/Þór

„Stjórnarskrá lýðveldisins og skuldbindingar íslenska ríkisins á sviði mannréttinda byggjast meðal annars á því að stjórnvöld verði að hafa lagaheimild til að skerða frelsi borgaranna.“ Á þessum orðum hefst yfirlýsing frá stjórn Dómarafélags Íslands. Er þar brugðist við gagnrýni á nýlegan úrskurð héraðsdóms um ólög­mæti skyldu­sótt­kví­ar í sótt­varna­húsi.

Þá segir að í réttarríki sé það hlutverk sjálfstæðra dómstóla að hafa eftirlit með því að stjórnvöld virði þessa skyldu sína.

„Málefnaleg gagnrýni á störf dómstóla á alltaf rétt á sér. Óvarlegar fullyrðingar á borð við að dómstólar gangist fyrir aðför að sóttvörnum á óvissu- og hættutímum eru ekki í samræmi við efnisatriði málsins og til þess fallnar að grafa undan stoðum réttarríkisins,“ segir að lokum í yfirlýsingunni.

Síðustu daga hefur úrskurður héraðsdóms verið gagnrýndur af ýmsum. Þannig sagði Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir úrskurðinn „óheppi­leg­an út frá sótt­varna­sjón­ar­miðum“ og Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, lýsti yfir vonbrigðum með hann. Reynir Arngrímsson, formaður Læknafélags Íslands, sagði jafnframt að „úrsk­urður héraðsdóms er al­var­leg aðför að sótt­vörn­um lands­ins“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert