„Ég sé fram á aukið öryggi og að færri atvik komi upp í nýjum spítala, atvik sem kosta bæði þjáningu og fjármuni,“ segir Alma D. Möller landlæknir í blaði Hringbrautarverkefnisins sem var dreift með Morgunblaðinu á föstudag.
„Ég sé fram á að einbýli og fleiri snyrtingar leiði til færri sýkinga og þar með sem lið í baráttunni gegn sýklalyfjaónæmi. Ég sé einnig fram á færri lyfjatengd atvik, færri byltur sjúklinga. Ég geri ráð fyrir fækkun ýmissa atvika sem tengjast þrengslum og því að bjóða sjúkrahúsþjónustu á mörgum stöðum.“
Landlæknir segir fyrir löngu kominn tíma til að byggja nýtt sjúkrahús. Hún hafi skrifað fyrstu grein sína um það árið 2007. „Þá þegar fannst mér húsnæði spítalans vera ófullnægjandi.“ Hún tjáði sig einnig sem yfirlæknir gjörgæsludeildar Landspítala við Hringbraut árið 2012. Þá sagði hún aðstöðuna óviðunandi og óhagkvæmt að reka spítalann á mörgum stöðum.
„Gamla húsnæðið okkar er bæði þröngt og óhentugt, en líka orðið lélegt,“ sagði hún þá. Leiði til betri árangurs og meiri gæða Nú segir hún að heilt yfir telji hún að bygging meðferðarkjarna sem og tilkoma annarra bygginga sem fyrirhugaðar séu leiði til betri árangurs og meiri gæða. „Í mörgum erlendum skýrslum er áætlað að hægt sé að nýta betur um 20% fjármuna í heilbrigðisþjónustu. Ég tel að þegar þjónusta verður sameinuð í meðferðarkjarna og búið að besta ýmsa verkferla fáist betri nýting á fjármagni.“
Landlæknir segir mikilvægt að halda áfram uppbyggingu þjóðarsjúkrahússins við Hringbraut þegar meðferðarkjarninn sé risinn. „Ljúka við þær byggingar sem þegar eru áætlaðar. Þar skiptir miklu að fjölga leguplássum og bæta göngudeildaraðstöðu.“
Hún segir að meðferðarkjarninn styðji vel við heilbrigðisstefnu stjórnvalda. „Það verður auðveldara að stjórna og samhæfa þegar starfsemin er sameinuð,“ segir hún.