„Mér er mjög misboðið“

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR.
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR. Haraldur Jónasson/Hari

„Ég hef ekki orðið var við það samráð,“ segir Ragnar Þór Ingólfsson þriðji varaforseti ASÍ og formaður VR, spurður hvort að samráð hafi verið haft við ASÍ vegna frumvarps fjármála- og efnahagsráðherra um lág­marks­trygg­inga­vernd og fleira tengt líf­eyr­is­mál­um.

Frumvarpið var birt í síðustu viku og fel­ast í því nokkr­ar breyt­ing­ar á lög­un­um skyldu­trygg­ingu líf­eyr­is­rétt­inda og starf­semi líf­eyr­is­sjóða.

Ragnar segir alvarlegt að lagt sé til að ekki verði greidd iðgjöld fyrir starfsfólk á aldrinum 16-18 ára. Það sé tekju- og réttindaskerðing fyrir ungt fólk.

Þá segir Ragnar breytingar á verðtryggingahlutanum, sem lagðar eru til í frumvarpinu, fela í sér miklar kjaraskerðingar fyrir launafólk. Lagt er til að verðbætur verði reiknaðar einu sinni á ári en ekki mánaðarlega eins og gert er með fasteignalán.

„Við erum búin að reikna þetta út. Þetta getur þýtt fyrir manneskju á lágmarkslaunum um 69 þúsund króna kjaraskerðingu fyrsta árið. Ef við tökum meðallífaldur, sem eru um 83 ár á Íslandi, þá væri þetta skerðing upp á tæplega 1.600 þúsund,“ segir Ragnar Þór. 

Óskar eftir skýringum frá forseta ASÍ

Ragnar segir að VR muni leggjast gegn framgangi þessa frumvarps. Hann segir VR skoða málið á sömu forsendum og VLFA sem nú undirbýr lögsókn á hendur ASÍ vegna málsins. 

„Mér finnst mjög alvarlegt að farið sé fram með þessar lagabreytingar án þess að haft sé við okkur samráð, hvorki VR né lífeyrisnefnd Alþýðusambandsins. Ég hef kallað eftir skýringu frá forseta ASÍ hverjir beri ábyrgð á þessu frumvarpi, hverjir voru í nefnd sem bjuggu þetta til og í hvaða umboði voru þeir?“

Ragnar kveðst ekki hafa fengið fullnægjandi svör frá Drífu Snædal, forseta ASÍ. Búið er að kalla lífeyrisnefnd ASÍ saman næstkomandi þriðjudag til að ræða málið.

„Það er með ólíkindum að búið sé að dreifa þessu frumvarpi, sem skerðir lífeyrisgreiðslur okkar félagsmanna án þess að það hafi verið kynnt fyrir okkur á fyrri stigum. Mér er bara mjög misboðið,“ segir Ragnar Þór.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert