Velferðarnefnd býst við því að fá afhent í dag öll gögn sem til staðar eru um könnun á lagagrundvelli reglugerðar heilbrigðisráðherra um skyldudvöl í sóttvarnahúsi, þ.á m. álit frá heilbrigðisráðuneytinu og dómsmálaráðuneytinu. Þetta segir Helga Vala Helgadóttir, formaður velferðarnefndar, í samtali við Morgunblaðið.
Helga Vala segir að sér hafi verið brugðið þegar hún sá að Morgunblaðið hefði álit dómsmálaráðuneytisins undir höndum. Álitið var ekki á meðal þeirra minnisblaða og gagna sem nefndin fékk þegar hún óskaði eftir gögnum sem leiddu að reglugerðarsetningunni. Þeirra á meðal er hins vegar álit frá lagaskrifstofu forsætisráðuneytisins sem ritað var tveimur dögum fyrir ríkisstjórnarfund, þann 29. mars, en reglugerðin tók gildi 1. apríl.
Velferðarnefnd og Morgunblaðinu var fyrst synjað um aðgang að gögnunum á grundvelli upplýsingalaga en heilbrigðisráðuneytið lét undan þrýstingi og afhenti gögnin fyrrnefndu síðdegis á föstudag.
Í grein Andrésar Magnússonar í Morgunblaðinu á laugardag kom fram að Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hafi látið undan þrýstingi á föstudga og lét senda fjölmiðlum velflest gögn tengd reglugerðarsetningu hinn 1. apríl, þar sem m.a. var kveðið á um skyldudvöl í sóttkvíarhóteli, sem héraðsdómur úrskurðaði síðar ólögmæta. Morgunblaðið hafði óskað eftir þeim gögnum í samræmi við upplýsingalög, en ráðherra synjaði því og bar við trúnaði, þar sem gögnin hefðu verið lögð fram á ríkisstjórnarfundi.
„Af fyrirliggjandi gögnum að dæma, sem eru fá og afar rýr í roðinu, virðist sem lögmætið hafi ekki borið á góma hjá starfsmönnum heilbrigðisráðherra fyrr en eftir gildistöku reglugerðarinnar, þegar allt var komið í óefni. Það er ekki fyrr en Páll Þórhallsson, lögfræðingur í forsætisráðuneytinu, skrifar minnisblað 29. mars, degi fyrir ríkisstjórnarfund, sem fyrst er vikið að því,“ segir í grein Morgunblaðsins á laugardag.
Í minnisblaði Páls er ekki tekið sterklega til orða, en þó segir að ekki leiki „vafi á því að lagaheimild er til staðar að kveða á um að ferðamenn skuli við komu til landsins vera í sóttkví í húsnæði þar sem hægt er að hafa með þeim eftirlit og sem uppfyllir sóttvarnarkröfur“.
Við nokkuð annan tón kveður í minnisblaði dómsmálaráðuneytisins, sem tekið var saman skömmu eftir gildistöku reglugerðarinnar. Þar er bent á að „hvergi í sóttvarnalögum [sé] kveðið á um það að heimilt sé að skylda einstaklinga sem geta sýnt fram á það að þeir geti vistast í heimahúsi, til að sæta sóttkví í sóttvarnahúsi [...]“ og að vafi leiki á lögmæti reglugerðarinnar: „Í samræmi við hina almennu lögmætisreglu og grundvallarregluna um lögbundnar refsiheimildir verður því að telja að vafi leiki á því að 5. gr. reglugerðar nr. 355/2021 eigi sér fullnægjandi lagastoð samkvæmt sóttvarnalögum nr. 17/1997 og því óljóst hvort unnt sé að beita henni sem grundvelli fyrir ákvörðun um þvingunaraðgerð eða sem gildri refsiheimild.“