Sífellt erfiðara er að ná til stórra hópa vegna þeirra fjölmörgu miðlunarleiða sem eru í boði. Áhrifin eru víðtæk og ekki síst í stjórnmálunum þar sem árangursríkt er að tala beint til afmarkaðs hóps sem er á sömu skoðun. Þetta segir Bergur Ebbi Benediktsson í Dagmálum í dag.
„Hugmyndin um stétt fyrir stétt, og að ná svolítið til allra, hún er alltaf að vera erfiðari,“ segir hann í samtali við Björtu Ólafsdóttur en „stétt fyrir stétt“ var slagorð Sjálfstæðisflokksins um langt skeið sem skapaði honum mjög víða skírskotun hjá íslenskum kjósendum á þeim tíma sem hann festi sig í sessi sem langstærsti stjórnmálaflokkur landsins. „Þú getur alltaf náð ákveðnum árangri með því að tala bara í sérhagsmunum, bara inn í þinn hóp og gera það þá nógu vel.“
Áskoranirnar sem nútímasamfélög standa frammi fyrir vegna örra tæknibreytinga eru stórar og varða lykilstofnanir samfélaga og stór málefni á borð við sjálfsmyndir þjóða. Grínistinn, rithöfundurinn og samfélagsrýnirinn Bergur Ebbi Benediktsson er gestur Bjartar Ólafsdóttur í Dagmálaþætti dagsins þar sem þau ræða um framtíðina, tækni, stjórnmál og þróun samfélagsins.
Dagmál eru aðgengileg áskrifendum Morgunblaðsins, en einnig er hægt að skoða þættina með því að kaupa vikupassa að vefútgáfu blaðsins. Þættina er að finna hér.