Þau sem hafa verið bólusett gegn Covid-19 eða hafa myndað mótefni gegn veirunni eftir sýkingu eru ekki undanskilin þeim reglum sem gilda í samfélaginu vegna faraldursins og ekki útlit fyrir að þau verði það í framtíðinni, að sögn heilbrigðisráðherra. Hún bendir þó á að með aukinni útbreiðslu bólusetningar verði mögulegt að létta meira á þeim takmörkunum sem gilda.
Spurð hvort tímabært sé að skoða afléttingaráætlanir í takt við auknar bólusetningar lengra fram í tímann en áður hefur verið gert segir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra:
„Já, það tel ég vera og við erum með slíkar hugmyndir í vinnslu og vonandi verður hægt að kynna eitthvað slíkt á næstu dögum.“
Slakað verður á aðgerðum innanlands á fimmtudag. Þá mega m.a. 20 manns koma saman, heilsuræktarstöðvum verður heimilt að hafa opið og sundlaugum sömuleiðis. Svandís segir að við ákvörðun um þessar aðgerðir hafi verið litið til þess að bólusetningar eldra fólks séu komnar langt. Stefnt er að því að klára bólusetningu þeirra sem eru 70 ára og eldri í þessari viku.
Aðgerðirnar sem taka gildi á fimmtudag voru, að sögn Svandísar, algjörlega í samræmi við tillögur Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis. Þær gilda í þrjá vikur.
„Þetta eru í raun og veru sambærilegar aðgerðir og við vorum með 13. janúar að viðbættum þeim sem þá voru 4. febrúar svo við erum í raun og veru að taka skref til umtalsverðra afléttinga núna,“ segir Svandís.
Spurð hvort reglurnar gildi um þau sem hafa fengið bólusetningu gegn Covid-19 eða myndað mótefni gegn kórónuveirunni segir Svandís:
„Við höfum ekki farið þá leið á Íslandi að vera með mismunandi reglur í samfélaginu eftir því hvort fólk er búið að fá bólusetningu eða ekki. Áhrifin af bólusetningum og vaxandi tíðni bólusetninga eru fyrst og fremst áhrifin á sóttvarnaaðgerðir fyrir alla.“
Þarf ekki að skoða þetta í framhaldinu, þegar bólusetning er orðin mjög útbreidd?
„Ef mjög margir eru komnir með bólusetningu getum við slakað enn frekar á sóttvarnaráðstöfunum. Það er markmiðið.“
Engar tillögur eru á hennar borði hvað varðar hertar aðgerðir á landamærum. Frá byrjun mánaðar hafa þeir sem koma með vottorð um bólusetningu eða fyrri sýkingu farið í eina skimun við komuna. Enginn hinna bólusettu hefur reynst smitaður í þeirri skimun.
Sýnir þetta að það sé mögulega ónauðsynlegt að skima bólusetta við komuna?
„Það sýnir okkur alla vega að hingað til erum við að sjá að við getum treyst þessum bólusetningum en það auðvitað brýnir okkur líka í því að fylgjast mjög vel með þessu. Ég held að það sé ekki ástæða til að hætta þessu,“ segir Svandís.
Pfizer er eini bóluefnaframleiðandinn sem Íslendingar versla við sem hefur gefið út afhendingaráætlun lengra fram í tímann en nokkrar vikur. Svandís segist alltaf eiga von á því að fá sambærilegar áætlanir frá hinum framleiðendunum þremur, Moderna, AstraZeneca og Janssen.
„Við erum í raun að sjá mikla framleiðsluaukningu hjá öllum framleiðendum þannig að við verðum bara að sjá hvað gerist. Við erum með áætlun sem miðar við tiltekinn fjölda á öðrum ársfjórðungi og við sjáum að það er í raun og veru verið að gefa mjög mikið í miðað við það sem var á tímabilinu janúar til mars,“ segir Svandís.