„Þetta er ákveðið áhyggjuefni, að það séu þrír séu að greinast, einn á Vesturlandi, einn á Suðurnesjum og einn á höfuðborgarsvæðinu. Í tveimur tilfellum er ekki klár tenging við önnur smit eins og staðan er núna. Það er áhyggjuefni,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir í samtali við mbl.is í dag.
Þrjú smit greindust innanlands í dag og voru þau öll utan sóttkvíar. Eins og fram kemur í máli Þórólfs greindust þau á þremur mismunandi stöðum á landinu. Hann segir einnig að þau tengist líklega ekki.
„Veiran er þarna úti, auðvitað á hún erfitt uppdráttar að valda stærri sýkingum þegar takmarkanir hafa verið miklar. En auðvitað hefur maður áhyggjur að ef farið verður að slaka á þá fáum við meiri útbreiðslu,“ segir Þórólfur.
Rakning smitanna er í gangi í tveimur tilvikum. Þórólfur segir að nokkurn veginn sé vitað hvernig eitt tilfellið er og hvaðan það kemur. „Það er bara spurning hvað sá náði að smita marga áður en greining varð.“
Þórólfur bendir á að stundum þurfi að bíða eftir niðurstöðum raðgreininga til að fá niðurstöður rakningar.
Þórólfur skilaði minnisblaði til heilbrigðisráðherra í gær með tillögum að fyrirkomulagi sóttvarnaaðgerða. í gær var útlit fyrir að hægt væri að slaka á aðgerðum þar sem ekkert smit hafði greinst utan sóttkvíar og kvaðst Þórólfur ánægður með árangur aðgerðanna sem nú eru í gildi.
Spurður hvort til þess gæti komið að minnisblað sem skilað var í gær gæti orðið úrelt áður en ný reglugerð tekur gildi segir Þórólfur að hann geti ekki útilokað það.
„Það fer svolítið eftir hvað gerist í dag og á morgun. Það er þannig að þetta breytist hratt og þess vegna er þessi ófyrirsjáanleiki. Ég vildi að maður gæti séð fram á breiðan veg og að við vissum hvernig þetta myndi enda. En ef við fáum mikla aukningu núna þá þarf að hugsa málið upp á nýtt.“