Ísland grænt á ný, eitt Evrópuríkja

Kort/Sóttvarnastofnun Evrópu (ECDC)

Ísland er aftur orðið grænt á korti sóttvarnastofnunar Evrópu, eitt Evrópuríkja. Stofnunin uppfærir á hverjum fimmtudegi kort sem sýnir nýgengi Covid-19-smita í Evrópu, að því er heilbrigðisráðuneytið greinir frá.

Græni liturinn er til marks um að 14 daga nýgengi smita sé minna en 25 smit á hverja 100.000 íbúa.

„Þetta er ánægjulegur vitnisburður um að sóttvarnaaðgerðir hér á landi duga vel, við erum á réttri leið og síðast en ekki síst fjölgar nú jafnt og þétt í hópi bólusettra hér á landi,“ segir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra á vef ráðuneytisins. 

Alls hafa nú rúmlega 67.000 einstaklingar fengið bólusetningu hér á landi og þar af eru rúmlega 28.000 fullbólusettir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert