„Maður hefði viljað sjá þetta betra,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir um Covid-tölur dagsins. Fjórir greindust með kórónuveiruna innanlands í gær og voru þrír af þeim utan sóttkvíar við greiningu.
Þórólfur segir engin tengsl á milli þeirra sem greindust utan sóttkvíar í gær og smitin virðist ekki tengjast fyrri tilfellum.
„Veiran er úti í samfélaginu og getur skotið upp kollinum þegar minnst varir.“
Einhverjir tugir þurfa að fara í sóttkví vegna smitanna en þeir sem greindust eru búsettir á höfuðborgarsvæðinu.
Þórólfur segir rakningu ganga vel en hún sé háð því hversu vel fólk muni ferðir síðustu daga og hvort það segi satt og rétt frá. „Síðan bíðum við niðurstöðu raðgreiningar og það ætti að skýra myndina eitthvað frekar.“
Í fyrradag greindist ekkert smit en Þórólfur segir tölur gærdagsins áminningu fyrir helgina ef fólk var farið að slaka á sóttvörnum:
„Fólk þarf algjörlega að passa sig áfram og þótt það sé almennt farið að slaka á verður hver og einn að passa sig núna eins og áður. Þetta þýðir ekki það að þótt verið sé að rýmka upp í 20 manns þurfi fólk að vera í 20 manna hópi. Fólk þarf virkilega að gæta sín áfram því annars fáum við aukningu í þetta og það væri ekki gott.“