„Mér létti stórum eftir að hafa gert þetta í dag og skilað þannig skömminni til gerandans,“ segir Páll Óskar Hjálmtýsson í samtali við mbl.is. Hann birti í dag af sér nektarmyndir sem höfðu komist í dreifingu gegn hans vilja og tók þannig völdin yfir myndunum úr höndum gerandans. Hann hvetur fólk sem lendir í sambærilegu til þess að kæra athæfið, hafi það möguleika á því.
„Skömmin er aldrei hjá þeim sem treystir heldur hjá þeim sem brýtur trúnaðinn. Þar liggur skömmin. Nú er það orðið glæpsamlegt. 14. febrúar síðastliðinn voru samþykkt lög þar sem er tekið sérstaklega á þessum aðstæðum. Nú er ég í þessum aðstæðum og ég hef ákveðið að snúa vörn í sókn. Það er ég sem birti þessar myndir á mínu Instagrammi og mínu Facebook. Ég er fullfær um að dreifa þessum myndum sjálfur. Án hans íhlutunar,“ segir Páll Óskar.
Myndirnar komust fyrst í dreifingu fyrir um einu og hálfu ári. Á 51 árs afmælisdag Páls Óskars tóku myndirnar svo stökk í dreifingu, 16. mars sl.
„Þá lét einhver aðili þessar myndir í story hjá sér á Snapchat og skrifaði yfir þær: „Til hamingju með daginn Palli.“ Hann hefur verið svona [ofurdreifari], því þá fer þetta allt á flug. Þarna fór ég að fá skilaboð frá ótrúlegasta fólki sem ég þekki ekki neitt,“ segir Páll Óskar.
„Það er svo magnað að síðan þetta gerðist fyrir einu og hálfu ári hefur mér aldrei verið ógnað, mér hótað eða ég beittur fjárkúgunum. Þetta er bara einbeittur brotavilji að reyna að smætta mig.“
Páll Óskar segir að greinilegt sé að málið gangi út á völd.
„Það er engu líkara en honum finnist hann hafa einhver völd yfir mér því hann er með myndir af mér og heldur að hann geti fengið mig til að skammast mín. Ég spyr sjálfan mig hvað honum gangi til með þessu. Er hann að reyna að fá mig til að skammast mín fyrir að vera hommi? Fyrir að vera á Grindr, fyrir að leita að kynlífi, fyrir að vilja lifa kynlífi, fyrir það hvernig ég lít út? Ef hann heldur að ég skammist mín fyrir eitthvað af þessu þá er hann þrjátíu árum of seinn. Ég er búinn að vera „sex positive“ síðan ég byrjaði sjálfur að stunda kynlíf árið 1987.“
Páll Óskar hefur aldrei lent í sambærilegu og segist ekki vilja lenda í þessu aftur. Hann veit ekki hver maðurinn er sem kom myndunum í dreifingu enda lokaði hann á Pál Óskar þegar hann hafði sent myndirnar á sínum tíma.
„Ef ég vissi hver þessi hálfviti væri myndi ég hiklaust kæra hann. Því miður veit ég ekki hvert fíflið er vegna þess að hann blokkerar mig nokkrum sekúndum eftir að ég er búinn að ýta á send. Þar með kemur hann í veg fyrir að ég geti rakið hann að neinu leyti eða „reportað“ hann.“
Spurður um viðbrögðin sem hann hafi fengið eftir að hann birti myndirnar sjálfur segir Páll Óskar: „Ég hef bara séð jákvæð, uppbyggjandi, hvetjandi, lófaklappandi viðbrögð.“
Páll Óskar er með skilaboð til þeirra sem hafa og gætu lent í sambærilegri reynslu:
„Núna eru breyttir tímar og svona athæfi er komið í refsilög. Ekki hika við að kæra viðkomandi ef þið mögulega getið og láta á þetta reyna. Við erum enn að búa til umferðarreglur í netheimum fyrir okkur sjálf. Hér er ein mikilvæg umferðarregla í mótun: Hættum að líta á ljósmyndir sem við tökum af okkur sjálfum til einkanota sem klám eða eitthvað „offensíft“. Í dag, á símaöld, getum við litið á þetta sem ástarbréf eða eitthvað mjög einlægt sem þú gefur annarri manneskju í algjöru trausti og trúnaði. Þannig að; lærum að bera virðingu fyrir okkur sjálfum og okkar tilfinningalega og líkamlega einkasvæði,“ segir Páll Óskar og bætir við að lokum:
„Ég get auðvitað ekki stjórnað þessum manni eða hans gjörðum en ég get stjórnað viðbrögðum mínum við gjörðum hans. Mín viðbrögð verða þau að ég ætla að birta nektarmyndirnar af sjálfum mér sem víðast til þess að undirstrika það að kynlíf er ekkert til þess að skammast sín fyrir og nú eru þessar ljósmyndir ekki lengur vopn í höndum hans heldur yndislegt, heilandi og frelsandi verkfæri. Það er hægt að breyta öllu slæmu í eitthvað pínu gott.“