Hvergi í löndum OECD hefur atvinnuleysi aukist jafnmikið og á Íslandi frá því kórónuveirufaraldurinn hófst. Atvinnuleysi á Íslandi mælist nú 12,8%, en atvinnuleysi árið 2020 var 4,3 prósentustigum meira en meðaltal áranna 2015-2019. Þetta sýna tölur frá OECD. Um 21 þúsund manns eru atvinnulausir á Íslandi, þar af helmingur á aldrinum 18 til 35 ára.
Ungir jafnaðarmenn vekja athygli á þessu í umsögn sinni um fjármálaáætlun næstu fimm ára. Segja þeir horfur á vinnumarkaði slæmar í samanburði við önnur OECD-ríki og þær hafi versnað samkvæmt nýjustu þjóðhagsspá, jafnvel þótt samdráttur í vergri landsframleiðslu hafi reynst minni en spár gerðu ráð fyrir.
Í umsögninni segja Ungir jafnaðarmenn að máttlausar aðgerðir stjórnvalda hafi magnað upp atvinnuleysi í landinu. Rangt sé í mestu atvinnukreppu á Íslandi frá upphafi að leggja ofuráherslu á að tilteknu skuldahlutfalli sé náð, eins og gert sé.
Í fjármálaáætluninni, sem liggur fyrir þingi, er stefnt að því að skuldahlutfall hins opinbera af landsframleiðslu verði ekki hærra en 54% við árslok 2025.
Alþjóðlegur samanburður á stuðningsaðgerðum stjórnvalda vegna kreppunnar er vandasamur, en bent er á að í greinargerð með fjármálaáætlun sé að finna samanburð á umfangi ríkisfjármálaaðgerða nokkurra ríkja.
Þar má sjá að sjálfvirkir sveiflujafnar á Íslandi eru í meðallagi meðal OECD-ríkja, en undir það falla útgjöld á borð við atvinnuleysisbætur og aðra þætti sem aukast sjálfkrafa þegar hagur fólks versnar án þess að breyta þurfi reglum. Sé litið til sértækra aðgerða eru þær mun minni á Íslandi en í samanburðarlöndum.
Ungir jafnaðarmenn segja að réttast væri að forsendur fjármálaáætlunar grundvölluðust á markmiðum um að ná aftur fullri atvinnu í landinu, auka verðmætasköpun og ná jafnvægi í þjóðarbúskapnum. „Ofuráhersla á tiltekið hlutfall opinberra skulda kann að gefa fjármálaáætlun falskt yfirbragð ábyrgðar og fagmennsku en reynist fúsk við nánari athugun,“ segir í umsögninni.
Litlu máli skipti fyrir almenning í landinu hvort skuldahlutfall hins opinbera verði 54 eða 59 prósent árið 2025, svo dæmi sé tekið, en öllu skipti að endurheimta atvinnu og ná þar með að fullnýta framleiðsluþætti hagkerfisins.