Páskagígar þurrausnir

Sprunga sem opnaðist á öðrum degi páska, 5. apríl.
Sprunga sem opnaðist á öðrum degi páska, 5. apríl. mbl.is/Ólafur Þórisson

Tveir nyrstu gígar eldgossins í Geldingadölum við Fagradalsfjall eru hættir að gjósa. Eru það gígarnir tveir sem mynduðust á öðrum degi páska. Salóme Jórunn Bernharðsdóttir, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofunni, staðfestir þetta í samtali við mbl.is og segir Birgi Óskarsson jarðfræðing fyrstan hafa tekið eftir því á flugi yfir svæðið í gær. 

Ómögulegt er að segja til um hvaða þýðingu það hafi fyrir gosið. Hvort þetta marki upphafið að endalokunum eða ekki. „Hingað til hefur hraunflæðið verið nokkuð stöðugt þó að nýir gígar hafi opnast,“ segir Salóme.

14 milljónir rúmmetra

Mánuður er í dag liðinn frá því gos hófst og er heildarrúmmál hraunsins orðið 14 milljónir rúmmetra, eða sem nemur 14.000 Laugardalslaugum. Nú eða tólfföldu rúmmáli Wembley-leikvangsins á Englandi. Flatarmál hraunsins er 0,9 ferkílómetrar.

Frá upphafi goss hefur meðalrennsli þess verið um 5,6 rúmmetrar á sekúndu, en síðustu vikuna hefur það þó verið nokkuð meira eða tæpir 8 rúmmetrar á sekúndu. Þetta þykir ekki mikið.

Í tilkynningu frá Jarðvísindastofnun HÍ segir að samanburður við önnur gos sýni að þrátt fyrir aukninguna sé rennsli gossins aðeins um helmingur þess sem kom að meðaltali upp fyrstu tíu dagana á Fimmvörðuhálsi vorið 2010, og taldist það gos þó lítið. Er það til marks um það hversu lítið þetta vinsæla gos er, eins og hefur verið klifað á.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert