Skjálfti upp á 4,1 og aukin virkni

Áhugafólk veltir því fyrir sér hvort nýr gígur hafi opnast …
Áhugafólk veltir því fyrir sér hvort nýr gígur hafi opnast í Geldingadölum, lengst til hægri frá sjónarhorni vefmyndavélar mbl.is. Skjáskot/Vefmyndavél mbl.is

Jarðskjálfti af stærðinni 4,1 mældist klukkan 23:05 í kvöld um þrjá kílómetra norðaustur af fjallinu Þorbirni.

Í tilkynningu frá Veðurstofu Íslands segir að skjálftinn hafi fundist víða á Suðvestur-, Suður- og Vesturlandi, allt austur á Hellu og norður í Grundarfjörð. Nokkrir eftirskjálftar hafa fylgt í kjölfarið.

Þetta er stærsti skjálfti sem mælst hefur á Reykjanesskaga síðan 15. mars eða frá því áður en gos hófst.

Þá telur áhugafólk um eldgosið í Geldingadölum, í facebook-hópnum Jarðsöguvinir, sig hafa séð nýjan gíg opnast á gosstöðvunum.

Salóme Jórunn Bernharðsdóttir, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, er þó ekki tilbúin að staðfesta að nýr gígur hafi opnast og telur líklegt að um sé að ræða aukinn kraft í gíg sem opnaðist á laugardaginn var. 

Sjá má aukinn kraft úr gíg sem sést lengst til hægri á vefmyndavél mbl.is en talið er að nýi gígurinn hafi opnast fyrir aftan nyrsta gíginn eða lengst til hægri frá sjónarhorni vefmyndavélar mbl.is.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka