Einstaka þingmenn innan þingflokks Sjálfstæðisflokksins settu fyrirvara við afgreiðslu frumvarps Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra, um breytingar á sóttvarnalögum. Þetta staðfestir Birgir Ármannsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, í samtali við mbl.is.
Þingflokkar stjórnarmeirihlutans afgreiða mál sem koma frá ríkisstjórn sérstaklega áður en þau eru lögð fyrir þingið.
Spurður út í fyrirvarana segist Birgir gera ráð fyrir að þingmenn sem þá settu muni gera grein fyrir þeim við þinglega meðferð málsins í dag.
„Áform forseta er að hraða málsmeðferð eins og hægt er,“ segir Birgir. Líklegt er að reynt verði að gera frumvarpið að lögum í dag. Mælt verður fyrir málinu um klukkan 13.30 í dag, að óundirbúnum fyrirspurnum loknum, þá mun Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, mæla fyrir máli sínu um breytingar á sóttvarnalögum. Taka þarf málin fyrir með afbrigðum vegna þess hve seint á þingvetrinum þau eru komin fram.
Að fyrstu umræðu lokinni verður velferðarnefnd kölluð saman til að funda um málið. Standi til að gera frumvarpið að lögum í dag þarf að setja nýjan þingfund eftir fund velferðarnefndar. Þá eru teknar fyrir breytingatillögur, séu einhverjar og atkvæði greidd um málið að nýju.
Venjulega ganga mál svo beint í þriðju umræðu, á nýjum þingfundi en hægt er að kalla þau inn í nefnd á milli annarrar og þriðju umræðu. Þá þarf að halda nýjan nefndarfund á milli. Frumvarpið verður svo að lögum, hljóti það meirihluta atkvæða, eftir þriðju umræðu.
Ljóst er að langur dagur er fram undan á Alþingi, sérstaklega hjá nefndarmönnum velferðarnefndar. Búast má við nokkurri umræðu um málið á þinginu.