Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, kynnti í dag nýja heildstæða nálgun áfangastaðastjórnunar: Vörðu. Fyrstu áfangastaðirnir sem hefja ferli til að verða Vörður eru Gullfoss, Geysir, Þingvallaþjóðgarður og Jökulsárlón.
Með Vörðu verða lögð drög að fyrirmyndaráfangastöðum og verða Vörður áfangastaðir á Íslandi sem teljast einstakir á lands- eða heimsvísu. Meginaðdráttarafl þeirra eru náttúrufyrirbæri og/eða menningarsögulegar minjar sem mynda sérstætt landslag eða landslagsheildir, að því er fram kemur í tilkynningu.
„Heitið Varða byggir á þeim fjölmörgu vörðum sem finnast í íslenskri náttúru. Vörður eru vel þekktar og hluti af ímynd Íslands. Vörður geyma sögu og arfleifð. Þær eru hlaðnar úr staðarefni, tengjast umhverfinu, vísa veginn í átt að áfangastað og mynda leiðakerfi,“ segir Þórdís Kolbrún.
Þeir áfangastaðir sem verða að Vörðum eru fjölsóttir áfangastaðir sem ferðamenn sækja heim allt árið um kring. Við umsjón þeirra er unnið að sjálfbærni á öllum sviðum, umhverfislegri, samfélagslegri og efnahagslegri. Staðirnir þurfa að sýna fram á langtímaskuldbindingu til þess að framfylgja skilgreindum viðmiðum við stjórnun og skipulagningu m.a. hvað varðar hönnun innviða, aðgengi, fræðslu, öryggi, álagsstýringu, stafræna innviði og fleira.