Gullfoss, Geysir, Þingvellir og Jökulsárlón fyrstu Vörðurnar

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, kynnti í dag nýja heildstæða nálgun áfangastaðastjórnunar: Vörðu. Fyrstu áfangastaðirnir sem hefja ferli til að verða Vörður eru Gullfoss, Geysir, Þingvallaþjóðgarður og Jökulsárlón. 

Með Vörðu verða lögð drög að fyrirmyndaráfangastöðum og verða Vörður áfangastaðir á Íslandi sem teljast einstakir á lands- eða heimsvísu. Meginaðdráttarafl þeirra eru náttúrufyrirbæri og/eða menningarsögulegar minjar sem mynda sérstætt landslag eða landslagsheildir, að því er fram kemur í tilkynningu.

„Heitið Varða byggir á þeim fjölmörgu vörðum sem finnast í íslenskri náttúru. Vörður eru vel þekktar og  hluti af ímynd Íslands. Vörður geyma sögu og arfleifð. Þær eru hlaðnar úr staðarefni, tengjast umhverfinu, vísa veginn í átt að áfangastað og mynda leiðakerfi,“ segir Þórdís Kolbrún.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þeir áfangastaðir sem verða að Vörðum eru fjölsóttir áfangastaðir sem ferðamenn sækja heim allt árið um kring. Við umsjón þeirra er unnið að sjálfbærni á öllum sviðum, umhverfislegri, samfélagslegri og efnahagslegri. Staðirnir þurfa að sýna fram á langtímaskuldbindingu til þess að framfylgja skilgreindum viðmiðum við stjórnun og skipulagningu m.a. hvað varðar hönnun innviða, aðgengi, fræðslu, öryggi, álagsstýringu, stafræna innviði og fleira.

Frá Þingvöllum.
Frá Þingvöllum. mbl.is/Sigurður Bogi
Jökulsárlón.
Jökulsárlón. mbl.is/Ásdís
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert