Nashyrningarnir á svið þrátt fyrir tilraunir Facebook

Hilmir Snær og Gói eru meðal leikara í Nashyrningunum, sem …
Hilmir Snær og Gói eru meðal leikara í Nashyrningunum, sem frumsýndir verða í kvöld. Ljósmynd/Þjóðleikhúsið

Leiksýningin Nashyrningarnir verður frumsýnd í Þjóðleikhúsinu í kvöld. Ekki vildi betur til en svo að Facebook lokaði í gær tímabundið fyrir auglýsingar frá Þjóðleikhúsinu en svo virðist sem eftirlitskerfi fyrirtækisins hafi dregið þá ályktun af auglýsingum um sýninguna að þar væri átt í viðskiptum með dýr í útrýmingarhættu.

Greint er frá þessu í fréttabréfi leikhússins og bent á að vitanlega komi enginn nashyrningur nálægt sýningunni. Aðeins fólk og einn köttur. Leikhúsinu virðist hafa tekist að koma vitinu fyrir starfsmenn Facebook því auglýsingarnar eru farnar að flæða um samfélagsmiðilinn á ný.

Nashyrningarnir eru eitt frægasta verk fransk-rúmenska skáldsins Ionescos. Leikritið, sem var frumflutt árið 1959, segir frá því hvernig líf fólks í litlum bæ umturnast þegar íbúar taka einn af öðrum að breytast í nashyrninga. Benedikt Erlingsson leikstýrir en meðal leikara eru Arnmundur Ernst Backman og Guðjón Davíð Karlsson (Gói).

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert