Eitt stærsta rafíþróttamót heims sem áætlað er að halda á Íslandi í maí er á áætlun og verður fram haldið. Þetta staðfestir Birgir Bárðarson, framkvæmdastjóri Sýningahallarinnar, sem heldur utan um viðburðahald í Laugardalshöllinni. Gert er ráð fyrir að starfsmenn og keppendur verði um fjögur hundruð þegar allt er talið.
Greint var frá því í vikunni á mbl.is að bólusetningar við Covid-19 hjá Heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu muni færast í stóra salinn í Laugardalshöll á þriðjudaginn í næstu viku. Að sögn Birgis mun mótið ekki hafa áhrif á bólusetningar í Laugardalshöll heldur verður bólusetning algjörlega aðskilin rafíþróttamótinu.
Ólafur Hrafn Steinarsson, formaður Rafíþróttasambands Íslands, kveðst ekki hafa áhyggjur af sóttvarnaráðstöfunum. Heilt hótel hafi verið leigt undir leikmenn mótsins, þar sem gert er ráð fyrir að þeir verði í sóttkví með æfingaaðstöðu. Annað hótel verður síðan leigt sérstaklega undir starfsfólk mótsins og því haldið aðskildu frá leikmönnum.
Hann segir einnig vel gerlegt að halda sóttvarnahólf og að aldrei verði fleiri en 20 í hverju hólfi. „Þetta er í rauninni framkvæmd sem við þekkjum ekki á Íslandi af því að ekkert er nógu stórt á Íslandi til að réttlæta þetta umfang,“ segir Ólafur.
Hann bendir á að NBA-körfuboltadeildin kláraði sína úrslitakeppni með ströngu utanumhaldi og eftirliti með keppendum og starfsfólki. Ólafur segir Riot Games, sem er framleiðandi tölvuleikjanna sem keppt verður í, vel hæft og að það eigi mikið undir að sóttvörnum verði fylgt í hvívetna.
Ólafur, sem sjálfur vann hjá Riot Games fyrir nokkrum árum, segir fyrirtækið leggja mikið upp úr virðingu gagnvart gestgjafaþjóðum sem og utanumhaldi fyrir starfsfólk sitt.
„Ég fór á heimsmeistaramótið í Seoul í Suður-Kóreu, sem fulltrúi Riot Games. Ég þurfti að sitja þriggja daga menningarnámskeið til að passa að ég myndi ekki móðga fólk úti í búð, sem starfsmaður Riot í Kóreu,“ segir Ólafur.
„Ísland hefur nú þegar leikið stórt hlutverk í kynningarefninu. Fókusinn í kynningarefninu er að Ísland sé epískasti leikvöllur þessara móta frá upphafi og verður mjög framarlega í þessum útsendingum. Þannig að við erum að tala um landkynningartækifæri sem á sér ekki hliðstæðu í Íslandssögunni, sem kemur upp í miðjum heimsfaraldri.“ Ólafur segir tækifærið einstakt.
Hann segir Ísland hafa unnið fimmtán önnur lönd í útboðsferlinu um að fá að halda mótið. „Við unnum stór lönd sem í venjulegu árferði við eigum ekkert í. Árið 2019 var áhorfið á heimsmeistaramótið í League of Legends 190 milljónir manna, sama ár var uppsafnað áhorf á Eurovision 182 milljónir manna.“
Ólafur segir í raun ótrúlegt að Ísland fái þennan viðburð án þess að ráðast í dýra innviðafjárfestingu. „Þetta er í raun einstakt tækifæri sem kemur upp. Riot Games eru í bílstjórasætinu og vinna þarna með íslenskum samstarfsaðilum.“