Skemmdarverk og mikil óregla

Það er sóðalegt um að litast við nýju smáhýsin í …
Það er sóðalegt um að litast við nýju smáhýsin í Gufunesi þar sem ruslatunnurnar ráða illa við verkefnið. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Eftir að fyrstu íbúar fluttu inn í nýju smáhýsin í Gufunesi í Reykjavík hafa ofbeldisverk, skemmdarverk og fíkniefna- og áfengisneysla verið áberandi á svæðinu. Um tíma var gestagangur mjög mikill. Er lögreglan sögð vera þar í nær stöðugum verkefnum og hafa komið tímabil þar sem útköll þangað voru dagleg.

Valgarður Valgarðsson, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, segir reynslu lögreglu ekki góða af smáhýsunum.

„Þau hafa verið ansi mörg verkefnin þarna niður frá og þetta hefur ekki farið eins vel af stað og menn vonuðu í fyrstu,“ segir Valgarður í samtali við Morgunblaðið. „Helst eru þetta útköll vegna ágreinings, þjófnaðar og skemmdarverka. Dæmigerð verkefni sem tengjast fólki í óreglu,“ segir hann.

Einhver veggjakrotarinn fékk útrás á þessum vegg.
Einhver veggjakrotarinn fékk útrás á þessum vegg. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Smáhýsin fimm eru fyrir utan það sem kalla má alfaraleið og er því langt í næstu þjónustu og almenningssamgöngur. Hefur Morgunblaðið til að mynda heimildir fyrir því að nokkuð hafi verið um ölvunar- og fíkniefnaakstur til og frá smáhýsunum. Þegar svæðið var sótt heim í vikunni mátti sjá augljós ummerki um skemmdarverk. Þannig voru meðal annars gluggar skemmdir og veggjakrot sýnilegt. Á einum stað var ljóst að eldur hafði verið lagður að innanstokksmunum. Þá var rusl og drasl víða áberandi í kringum húsin.

Fólkinu plantað úti í móa

Elísabet Gísladóttir, formaður íbúasamtaka Grafarvogs, segir staðsetningu smáhýsanna afleita og að á það hafi verið bent á sínum tíma.

„Það að skella niður svona mörgum húsum á einn stað kallar bara á eitt; stanslaust partí,“ segir hún og bendir á að íbúar í Grafarvogi hafi margir hverjir á sínum tíma lýst yfir áhyggjum vegna uppbyggingar húsanna. Skortur á þjónustu, samgöngum og augljós einangrun er á meðal þess sem bent var á.

Þessi gluggi hafði verið brotinn upp og lafir því opnanlega …
Þessi gluggi hafði verið brotinn upp og lafir því opnanlega fagið. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Á íbúafundi voru þessi áform máluð afar fallegum litum af borginni. Þetta átti að vera stuðningur við þetta fólk og skaðaminnkandi úrræði. En það er bara ekki rétt. Þessum einstaklingum var bara komið fyrir einhvers staðar úti í móa á einskismannslandi. Það þarf ekki annað en að skoða staðsetningu þessara húsa til að sjá hversu galið þetta er,“ segir Elísabet og heldur áfram: „Þetta fólk þarf ekki á því að halda að vera plantað úti í móa fjarri öllu. Fólkið þarf aukinn stuðning. [...] Það var búið að spyrja spurninga og gera athugasemdir við þetta, en allir þessir fræðingar og fagfólk innan borgarinnar hlustaði ekki. Og það er ekki að vinna þessu fólki gagn.“

Þá bendir Elísabet á að smáhýsin séu staðsett neðan við Hallsteinsgarð, eitt aðalútivistarsvæði íbúa í Grafarvogi. Segist hún vita dæmi þess að fólk finni fyrir óöryggi á göngu sinni um svæðið og sveigi því fram hjá smáhýsunum. „Það fer enginn þarna núna.“

Efuðust um staðsetninguna

Hrafnhildur Ólöf Ólafsdóttir, deildarstjóri hjá málefnum heimilislausra hjá Reykjavíkurborg, segist hafa haft áhyggjur af því að fyrstu húsin yrðu sett upp svo fjarri þéttri byggð.

„Það var á þessum tíma mikilvægt að koma fólki í húsnæði fyrir veturinn, en annars staðar strandaði lóðasamþykki ítrekað. Það var meðvituð ákvörðun að hafa nokkur hús fjarri þéttum hverfum, fyrir þau sem það vilja. Á sama tíma vitum við að meirihluti húsanna þarf að vera inni í hverfum og þá nálægt þjónustu. Þetta var aftur á móti fyrsta lóðin sem náði samþykki og þess vegna voru fyrstu húsin sett þarna upp,“ segir hún.

Einhver lagði eld að þessum munum sem liggja nú úti.
Einhver lagði eld að þessum munum sem liggja nú úti. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fram hefur komið að smáhýsin í Gufunesi eru fimm talsins. Búið er að úthluta fjórum húsum og er nú í gildi leigusamningur við þrjá einstaklinga. Ákveðið hefur verið að úthluta ekki fimmta húsinu. Verður það nýtt undir starfsfólk í von um að bæta þjónustuna.

Aðspurð segist Hrafnhildur Ólöf kannast við lýsingar á innbrotum og skemmdarverkum á bæði húsum og húsbúnaði. Í flestum tilfellum séu það óboðnir einstaklingar eða gestir íbúa sem valda þessu tjóni.

„Við höfum verið í miklum vandræðum með óboðið fólk á svæðinu. Svona gestagangur er oft það sem verður einstaklingum í búsetu að falli. Það að geta ekki haldið óæskilegum aðilum frá er mjög erfitt,“ segir hún og bætir við að margt hafi þó gengið vel. Nefnir hún í því samhengi gott samstarf lögreglu og VOR-teymis sem aðstoðar fólk sem er heimilislaust og með vímuefna- og geðvanda. „Það er mikilvægt að skoða áfram hvað má bæta og hverju má breyta til að íbúar smáhýsanna upplifi sig örugga og velkomna.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert