85 börn send í sóttkví vegna smitsins

Barnaskólinn á Eyrarbakka og Stokkseyri.
Barnaskólinn á Eyrarbakka og Stokkseyri. Af vef Barnaskólans á Eyrarbakka og Stokkseyri

85 börn í fyrsta til sjötta bekk í Barnaskólanum á Eyrarbakka og Stokkseyri voru send í sóttkví vegna smits sem kom upp hjá einum nemanda. Þá hefur allt starfsfólk yngra stigs verið sent í sóttkví. Þar sem smitaði nemandinn var síðast í skólanum fyrir tæpri viku vonast aðstoðarskólastjóri skólans til þess að smit hafi ekki náð að breiðast út innan skólans. 

„Allur er varinn góður. Við viljum frekar senda fleiri en færri í sóttkví og vera þá viss,“ segir Guðrún Björg Aðalsteinsdóttir, aðstoðarskólastjóri Barnaskólans á Eyrarbakka og Stokkseyri.

Þar sem allt heimilisfólk þarf að fara í sóttkví með börnum hefur smitið einnig áhrif á unglingastig skólans þar sem mörg börn þar eiga systkini sem stunda nám á yngra stigi skólans.

„Þannig að það er svolítið messufall hjá okkur,“ segir Guðrún um það.

Deila sameiginlegri aðstöðu

Ástæðan fyrir því að senda þarf nemendur alls yngra stigs í sóttkví þrátt fyrir að einungis eitt smit hafi greinst er sú að blöndun er á milli bekkja. 

„Það er sameiginleg salernisaðstaða, þau nota sama mötuneyti og svo framvegis,“ segir Guðrún.

Nemandinn var síðast í skólanum á þriðjudaginn í síðustu viku. Hann greindist svo smitaður af kórónuveirunni sl. laugardag. 

Eruð þið vongóð um að þetta hafi mögulega sloppið til, þar sem svo langt er síðan nemandinn mætti í skólann? 

„Já, við erum það alveg,“ segir Guðrún.

Nemendurnir fara í sýnatöku á morgun og því fellur kennsla hjá þeim niður í dag og á morgun.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert