Möguleiki á að smitast stuttu eftir bólusetningu

Það heyrir til undantekninga að fólk smitist af kórónuveirunni á …
Það heyrir til undantekninga að fólk smitist af kórónuveirunni á dögunum eftir bólusetningu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Dæmi eru um að fólk hafi smitast af kórónuveirunni degi eða nokkrum dögum eftir að það fékk bólusetningu gegn Covid-19. Þar sem það tekur tvær til þrjár vikur fyrir bóluefni að ná fullri virkni hjá bólusettum einstaklingi þurfa bólusettir að gæta sín sérstaklega vel á fyrstu vikum eftir bólusetningu, að sögn sóttvarnalæknis.

„Þetta eru undantekningatilvik,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir um smitin sem hafa komið upp á dögunum eftir bólusetningu.  

„Eins og við höfum bent á eru bóluefnin ekki 100% virk heldur 90 til 95% þannig að það eru alltaf einhverjir sem geta fengið smit ef þeir eru útsettir,“ segir Þórólfur sem bendir á að 90 til 95% virkni sé afar góð en það taki tvær til þrjár vikur fyrir bóluefnið að ná fullri virkni.

Fólk þarf áfram að gæta sín

Þórólfur segir að smitin sem hafi komið upp stuttu eftir bólusetningu séu ekki rannsökuð sérstaklega. Tvær sprautur þarf af öllum bóluefnum gegn Covid-19 sem eru notuð hér á landi nema bóluefni Janssen.

„Það þarf ekki að rannsaka þetta neitt frekar, þetta er eins og hvert annað smit. Það er miklu slakari verndun eftir eina sprautu en tvær. Á þessum tíma getur ýmislegt gerst. Þeir sem eru bólusettir ættu áfram að passa sig og raunar ætti fólk áfram að passa sig á meðan þátttakan er ekki meiri en þetta í samfélaginu. Veiran getur verið víða og dreift sér, sérstaklega á meðal þeirra sem eru óbólusettir, svo fólk þarf að gæta sín áfram.“

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir að mögulega fái karlmenn sem yngri …
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir að mögulega fái karlmenn sem yngri eru bóluefni AstraZeneca, en ekki konur. mbl.is/Arnþór

Mögulegt að yngri karlmenn fái AstraZeneca

Bólusetning með bóluefni Janssen hefst í vikunni. Þá eru lánsskammtar af bóluefni AstraZeneca frá Norðmönnum komnir til landsins. Sem stendur er fólk eldra en 60 ára bólusett með efninu en hugsanlega verður enn yngra fólk bólusett.

„Það gæti vel verið að við færum niður í 55 ára. Við erum að fara niður í 60 ára núna og það er hugsanlegt að við förum neðar,“ segir Þórólfur um það.

Sjaldgæfir blóðtappar hafa komið upp hjá yngri konum eftir bólusetningu með AstraZeneca, en tekið skal fram að þessi aukaverkun er afar sjaldgæf. Þórólfur segir að konur yngri en 55 ára muni ekki fá bóluefnið en mögulega karlar sem eru yngri.

„Vegna þess að þessar aukaverkanir hafa fyrst og fremst verið að koma fram hjá konum.“

Áhyggjuraddir hafa heyrst frá eldri konum sem eru smeykar við að fá bólusetningu með bóluefni AstraZeneca. Þórólfur segir að þær ættu ekki að þurfa að hafa áhyggjur.

„Þær upplýsingar sem við erum með um þessar aukaverkanir hafa fyrst og fremst sést hjá konum sem eru yngri en 55 ára. Þess vegna erum við að gefa þetta eldra fólki og teljum það eins öruggt og mögulegt er. Auðvitað hafa öll bóluefni einhverjar aukaverkanir en þetta er mjög fátítt í eldri hópnum svo það er mjög, mjög sjaldgæft.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka