Búið er að loka skíðasvæðum höfuðborgarsvæðisins og í Hlíðarfjalli við Akureyri. Ekki tókst að opna neitt í Skálafelli þennan veturinn og í Bláfjöllum rigndi meira en það snjóaði. Þetta kemur fram á vef skíðasvæðanna í Bláfjöllum og Skálafelli.
„Jæja, þá er þessi skrítni vetur búinn. Ekki er hægt að opna lyftur né leggja gönguspor. En það sérstaka við þennan vetur er að töluvert meira rigndi í vetur en snjóaði. Snjórinn sem hélt þessu uppi í vetur kom allur í nóvember og desember. Þökkum fyrir þennan undarlega vetur. Sjáumst vonandi strax í byrjun desember,“ segir á skidasvaedi.is.
Á Siglufirði er stefnt að því að lokaskíðadagur vetrarins verði sunnudagurinn 2. maí en næst verður opið í Skarðsdal á miðvikudag. Eins var opið um helgina í Tindastóli og ekki búið að tilkynna lokun þar.
Enn verður reynt að halda opnu í Seljalandsdal við Ísafjörð en Tungudalur er orðinn snjólaus fyrir utan Miðfell.
Áfram verður hægt að skíða á Austurlandi, en í Oddskarði er enn nægur snjór á skíðasvæðinu samkvæmt færslu á Facebook og hið sama gildir um Stafdal. Tekið skal fram að þessi listi er ekki tæmandi né heldur eru upplýsingar fyrirliggjandi um næstu daga á öllum skíðasvæðum.