Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, skýtur föstum skotum á forsetahjónin og segir þau vera þátttakendur í tryllingslegu gróðabraski, í umfjöllun Stundarinnar um fjármál þeirra í liðinni viku.
Hjónin leigja út íbúð í fjölbýlishúsi á Hringbraut fyrir 265 þúsund krónur en Stundin fullyrðir að meðalleiguverð sambærilegra íbúða sé 217 þúsund krónur.
Af þessu tilefni spurði Sólveig hvort hjónin séu föst í „forréttindabúbblu“: „Mér finnst ótrúlegt að fólk sem er í mestri forréttindastöðu í samfélaginu geti ekki hamið sig í græðgi.“
Stundin hafði samband við forsetahjónin og spurði hvort þeim fyndist leiguverðið sanngjarnt en leiguverðið svarar til markaðsverðs þar sem fasteignasala sá um að auglýsa íbúðina til leigu á opnum markaði, að sögn Guðna Th. og Elizu Reid. Þau vildu ekki tjá sig um orð Sólveigar Önnu.
Sólveig segist aldrei nokkurn tímann mundu hafa leigt umrædda íbúð út á 265 þúsund krónur á mánuði, væri hún í sömu stöðu og forsetahjónin: „Ég hefði aldrei getað ímyndað mér að forsetinn og Eliza hefðu í sér geð til að vera þátttakendur í þessu tryllingslega gróðabraski, þessum leik fjármagnseigenda og eignafólks.
Ég hefði haldið að þeim þætti þetta ekki siðferðislega rétt á þessum tíma sem nú er ríkjandi á fasteignamarkaði í Reykjavík. En við erum greinilega komin á þann stað að það eru engin mannréttindi mikilvægari en að fá að græða.“