„Umferð ríðandi á ekki heima á göngustígum í Heiðmörk, þar getur skapast mikil hætta,“ segir Auður Kjartansdóttir, framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Reykjavíkur, í samtali við mbl.is.
Skógræktarfélag Reykjavíkur fer með umsjón Heiðmerkursvæðisins í samstarfi við Reykjavíkurborg, Orkuveitu Reykjavíkur og Garðabæ.
„Það er árvisst að hestafólk, hjólreiðafólk og göngufólk fari inn á stíga sem ekki eru ætlaðir þeirra útivistahópi.“
Greint var frá mikilli óánægju útivistarfólks með umgang hesta á stígum sem ekki eru ætlaðir undir hestaumferð á mbl.is um helgina.
Heiðmörk, sem er 32 ferkílómetrar og að stórum hluta skógi vaxið, hefur að geyma stígakerfi þar sem er að finna tilgreinda hjólastíga og reiðvegi. „Þannig að við erum með skilgreinda reiðvegi og skilgreindar hjóla- og gönguleiðir á okkar svæði,“ útskýrir Auður.
„Umferð hesta á göngustígum er ekki leyfð og þröngir göngustígar inni í skógi eru ekki byggðir þannig upp að þeir beri hófför.“
„Málið er síðan ekki alveg svo einfalt því sums staðar eru fjölnota stígar. Brúin yfir Helluvatn þarf að bera hjóla-, hesta-, gangandi og bílaumferð. Oft bíða bílar eftir hestum og hjólum og jafnvel veiðimenn að veiða samtímis. Málið er ekki svo einfalt að það sé hægt að einskorða við sérstaka vegi,“ segir Auður.
Auður ítrekar að göngu- og hjólastígar séu ekki byggðir undir umferð hesta og þar sé hún ekki leyfð. „Að sama skapi eru sérstakir hjólreiðastígar þar, sem ætlaðir eru undir fólk sem stundar hjólreiðaíþróttir og fer hratt yfir, mælst er til þess að slík umferð sé ekki á stígum þar sem gangandi fari um.“