Fá sennilega annað bóluefni í seinni skammti

Hugsanlega er mögulegt að gefa fólki sem á að fá …
Hugsanlega er mögulegt að gefa fólki sem á að fá bóluefni AstraZeneca sína skammta með styttra millibili en þriggja mánaða, að sögn Þórólfs. Það á þó eftir að koma í ljós. mbl.is/Arnþór

Þeir sem eiga ekki að fá bóluefni AstraZeneca miðað við núverandi takmörkun á notkun þess, en fengu fyrri skammtinn áður en núverandi takmörkun var sett á, munu sennilega fá annað bóluefni í seinni skammtinum. Niðurstöður rannsókna á þessu liggja ekki fyrir en sóttvarnalæknir gerir ráð fyrir því að þetta muni gefa góða raun. 

Notkun bóluefnis AstraZeneca er takmörkuð hér á landi við eldra fólk. Áður en sú takmörkun var gerð hafði yngra fólk verið bólusett með efninu en einungis fengið einn skammt. Tvo skammta þarf af bóluefninu svo fólk teljist fullbólusett. Til þessa hefur ekki verið skýrt hvort fólkið sem ekki fellur inn í AstraZeneca-hópinn, en hefur fengið einn skammt af efninu, muni fá seinni skammtinn af bóluefninu. 

„Þeir sem við höfum talið að ættu ekki að fá AstraZeneca en eru búnir að fá fyrsta skammtinn munu fá seinni skammtinn með mRNA-bóluefninu,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir um það. Þau mRNA-bóluefni sem eru í notkun hérlendis og þarf tvo skammta af eru bóluefni Pfizer og Moderna.

Frá bólusetningu í Laugardalshöll í dag.
Frá bólusetningu í Laugardalshöll í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Hugsanlega hægt að gefa seinni skammtinn fyrr

Hann fékk sjálfur bólusetningu með bóluefni AstraZeneca í dag. 

„Aðrir, eins og ég, munu fá seinni skammtinn með AstraZeneca eftir þrjá mánuði. Hugsanlega er mögulegt að gefa þetta fyrr og þannig að það virki jafn vel en rannsóknir á bóluefninu hafa bara verið gerðar á bólusetningum eftir einn mánuð og eftir þrjá mánuði. Við þurfum bara aðeins að sjá til og gera þetta miðað við þær ábendingar sem koma frá Evrópsku lyfjastofnuninni,“ segir Þórólfur. 

Virkar í öðrum tilvikum

Aðspurður segir Þórólfur að rannsóknir á því að gefa einn skammt af bóluefni AstraZeneca og einn skammt af öðru bóluefni liggi ekki fyrir. 

„En mér finnst engin ástæða til að ætla að það virki ekki því þetta virkar fyrir önnur bóluefni. Öll bóluefni innihalda sama mótefnavakann þannig að mér finnst yfirgnæfandi líkur á því að þetta muni virka vel. Við vitum það ekki fyrr en niðurstöður úr þessum rannsóknum berast og það verður kannski ekki fyrr en í júní,“ segir Þórólfur. 

Þið munið þá væntanlega ekki gera þetta fyrr en niðurstöður rannsókna liggja fyrir?

„Jú, jú. Við getum alveg gert það fyrr, hugsanlega.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka