Öllu skellt í fyrsta gír

Öllu verður skellt i fyrsta gír í Ölfusi út vik­una en vitað er að ný smit komu upp í sveit­ar­fé­lag­inu í gær. Elliði Vign­is­son, bæj­ar­stjóri í Ölfusi, seg­ir að bú­ast megi við fjölg­un smita í dag en von­andi fari síðan að hægja á þegar sótt­varnaaðgerðir fari að skila ár­angri. Þær aðgerðir virðast vera eina vörn­in gegn veirunni seg­ir Elliði í sam­tali við mbl.is í morg­un.

Elliði seg­ist ekki vita ná­kvæm­lega hversu mörg ný smit voru greind í gær en í gær voru 10 í ein­angr­un og 19 í sótt­kví.

Eitt smit var staðfest meðal nem­enda í grunn­skól­an­um en unnið út frá því að þau séu fleiri.  Nem­andi í sjötta bekk grunn­skól­ans greind­ist með staðfest Covid-19-smit í gær og er búið að kort­leggja ferðir nem­andans. Nem­end­ur í 6. bekk og nokkr­ir starfs­menn skól­ans verða í sótt­kví fram á föstu­dag. Aðrir nem­end­ur eru beðnir um að vera heima út vik­una og hafa hægt um sig og lág­marka al­gjör­lega sam­skipti við aðra.

Enn hafa ekki komið upp smit í hópi nem­enda í leik­skól­an­um en starfsmaður í hluta­starfi við ræst­ing­ar hef­ur greinst með veiruna og þeir starfs­menn sem voru í bein­um sam­skipt­um við hann komn­ir í sótt­kví. Sótt­varna­yf­ir­völd telja ekki ástæðu til að loka leik­skól­an­um en bæj­ar­yf­ir­völd hafa beðið for­eldra sem það geta að vera heima með börn sín.

Að sögn Elliða er magnað að sjá viðbrögð bæj­ar­búa í Þor­láks­höfn allt frá því að ljóst var að hópsmit var í upp­sigl­ingu í sveit­ar­fé­lag­inu seint á sunnu­dags­kvöldið. 

„Þetta kom upp eft­ir klukk­an 11 á sunnu­dags­kvöld og um klukk­an 11:15 til 11:30 erum við að biðla til for­eldra barna á leik­skóla um að halda börn­um sín­um heima. Það mættu sex börn á leik­skól­ann morg­un­inn eft­ir af 111 börn­um og þar voru meðal ann­ars börn fram­lín­u­starfs­fólks. Þetta sýn­ir and­ann í bar­átt­unni,“ seg­ir Elliði. Hann seg­ir að það verði því ró­legt í Þor­láks­höfn út vik­una en það verði bætt upp síðar. 

Hluti af skilaboðum sem birtast undir samskipti á heilsuveru þegar …
Hluti af skila­boðum sem birt­ast und­ir sam­skipti á heilsu­veru þegar ein­stak­ling­ur hef­ur bókað sig í sýna­töku. Skjá­skot

Elliði birti í gær­kvöldi yf­ir­lit yfir stöðu mála í Þor­láks­höfn á Face­book: 

1. Öll starf­semi í Þor­láks­höfn mun ein­kenn­ast af varúðarráðstöf­un þessa vik­una. Við ætl­um að skipta í lægsta gír. Öll sem eitt ætl­um við að bera virðingu fyr­ir stöðunni. Við höld­um okk­ur sem mest heimavið og tak­mörk­um nær­veru utan „búbblunn­ar“ okk­ar.

2. Við ætl­um að sýna yf­ir­veg­un og vera þakk­lát fyr­ir þekk­ingu og reynslu þeirra sem stjórna aðgerðum. Það eru all­ir að gera sitt besta í mjög krefj­andi aðstæðum.

3. Allt hefðbundið starf í grunn­skól­an­um fell­ur niður út þessa viku. Skól­inn verður nýtt­ur til skimun­ar.

4. Starf­semi leik­skól­ans verður mjög tak­mörkuð á morg­un og senni­lega út vik­una. For­eldr­ar eru hvatt­ir til að halda börn­um sín­um heima ef þau hafa á því nokkra mögu­leika. Áhersla er lögð á að þjón­usta börn fram­línu­fólks.

5. Bóka­safnið verður lokað, æf­ing­ar barna falla niður, aðgengi að íþróttaaðstöðu verður lág­markað, bæj­ar­skrif­stof­urn­ar veita ein­göngu þjón­ustu i gegn­um síma, tölvu­pósta og fjar­fundi.

6. Þeim til­mæl­um er beint til þjón­ustu­fyr­ir­tækja í bæn­um að herða mjög all­ar sótt­varn­ir. Grímu­notk­un, handþvott­ur, spritt­un og fl. er afar mik­il­vægt.

7. Ráðist verður í skiman­ir und­ir stjórn rakn­ingat­eym­is okk­ar. Haft verður sam­band við þá sem boðaðir verða í skimun með SMS. Ráðgert er að skima á morg­un [í dag] miðviku­dag­inn 28. apríl fyr­ir alla sem voru út­sett­ir þriðju­dag­inn 20. apríl. Nem­end­ur í 4., 5. og 7. bekk eru all­ir boðaðir auk starfs­manna.

Send verða SMS seinna í kvöld eða í fyrra­málið með boðun í skimun. Aðrir sem eru með ein­kenni eða hafa verið út­sett­ir fyr­ir smiti geta einnig bókað sig í gegn­um Heilsu­veru.is. Gengið verður inn í skimun um rauðan inn­gang við Eg­ils­braut og út um gul­an inn­gang við Íþróttamiðstöð.

Við von­um að þetta gangi hratt og ör­ugg­leg fyr­ir sig. Þeir sem eru boðaðir í skimun á morg­un fá SMS. Föstu­dag­inn 30. apríl verður aft­ur boðið upp á skimun fyr­ir alla sem voru í sótt­kví og aðra, nán­ar aug­lýst síðar.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert