Öllu skellt í fyrsta gír

Öllu verður skellt i fyrsta gír í Ölfusi út vikuna en vitað er að ný smit komu upp í sveitarfélaginu í gær. Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Ölfusi, segir að búast megi við fjölgun smita í dag en vonandi fari síðan að hægja á þegar sóttvarnaaðgerðir fari að skila árangri. Þær aðgerðir virðast vera eina vörnin gegn veirunni segir Elliði í samtali við mbl.is í morgun.

Elliði segist ekki vita nákvæmlega hversu mörg ný smit voru greind í gær en í gær voru 10 í einangrun og 19 í sóttkví.

Eitt smit var staðfest meðal nemenda í grunnskólanum en unnið út frá því að þau séu fleiri.  Nemandi í sjötta bekk grunnskólans greindist með staðfest Covid-19-smit í gær og er búið að kortleggja ferðir nemandans. Nemendur í 6. bekk og nokkrir starfsmenn skólans verða í sóttkví fram á föstudag. Aðrir nemendur eru beðnir um að vera heima út vikuna og hafa hægt um sig og lágmarka algjörlega samskipti við aðra.

Enn hafa ekki komið upp smit í hópi nemenda í leikskólanum en starfsmaður í hlutastarfi við ræstingar hefur greinst með veiruna og þeir starfsmenn sem voru í beinum samskiptum við hann komnir í sóttkví. Sóttvarnayfirvöld telja ekki ástæðu til að loka leikskólanum en bæjaryfirvöld hafa beðið foreldra sem það geta að vera heima með börn sín.

Að sögn Elliða er magnað að sjá viðbrögð bæjarbúa í Þorlákshöfn allt frá því að ljóst var að hópsmit var í uppsiglingu í sveitarfélaginu seint á sunnudagskvöldið. 

„Þetta kom upp eftir klukkan 11 á sunnudagskvöld og um klukkan 11:15 til 11:30 erum við að biðla til foreldra barna á leikskóla um að halda börnum sínum heima. Það mættu sex börn á leikskólann morguninn eftir af 111 börnum og þar voru meðal annars börn framlínustarfsfólks. Þetta sýnir andann í baráttunni,“ segir Elliði. Hann segir að það verði því rólegt í Þorlákshöfn út vikuna en það verði bætt upp síðar. 

Hluti af skilaboðum sem birtast undir samskipti á heilsuveru þegar …
Hluti af skilaboðum sem birtast undir samskipti á heilsuveru þegar einstaklingur hefur bókað sig í sýnatöku. Skjáskot

Elliði birti í gærkvöldi yfirlit yfir stöðu mála í Þorlákshöfn á Facebook: 

1. Öll starfsemi í Þorlákshöfn mun einkennast af varúðarráðstöfun þessa vikuna. Við ætlum að skipta í lægsta gír. Öll sem eitt ætlum við að bera virðingu fyrir stöðunni. Við höldum okkur sem mest heimavið og takmörkum nærveru utan „búbblunnar“ okkar.

2. Við ætlum að sýna yfirvegun og vera þakklát fyrir þekkingu og reynslu þeirra sem stjórna aðgerðum. Það eru allir að gera sitt besta í mjög krefjandi aðstæðum.

3. Allt hefðbundið starf í grunnskólanum fellur niður út þessa viku. Skólinn verður nýttur til skimunar.

4. Starfsemi leikskólans verður mjög takmörkuð á morgun og sennilega út vikuna. Foreldrar eru hvattir til að halda börnum sínum heima ef þau hafa á því nokkra möguleika. Áhersla er lögð á að þjónusta börn framlínufólks.

5. Bókasafnið verður lokað, æfingar barna falla niður, aðgengi að íþróttaaðstöðu verður lágmarkað, bæjarskrifstofurnar veita eingöngu þjónustu i gegnum síma, tölvupósta og fjarfundi.

6. Þeim tilmælum er beint til þjónustufyrirtækja í bænum að herða mjög allar sóttvarnir. Grímunotkun, handþvottur, sprittun og fl. er afar mikilvægt.

7. Ráðist verður í skimanir undir stjórn rakningateymis okkar. Haft verður samband við þá sem boðaðir verða í skimun með SMS. Ráðgert er að skima á morgun [í dag] miðvikudaginn 28. apríl fyrir alla sem voru útsettir þriðjudaginn 20. apríl. Nemendur í 4., 5. og 7. bekk eru allir boðaðir auk starfsmanna.

Send verða SMS seinna í kvöld eða í fyrramálið með boðun í skimun. Aðrir sem eru með einkenni eða hafa verið útsettir fyrir smiti geta einnig bókað sig í gegnum Heilsuveru.is. Gengið verður inn í skimun um rauðan inngang við Egilsbraut og út um gulan inngang við Íþróttamiðstöð.

Við vonum að þetta gangi hratt og öruggleg fyrir sig. Þeir sem eru boðaðir í skimun á morgun fá SMS. Föstudaginn 30. apríl verður aftur boðið upp á skimun fyrir alla sem voru í sóttkví og aðra, nánar auglýst síðar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka