„Þessi umræða fór aðeins of langt“

„Ef það er einhver upplýsingaskortur þá skapar það óánægju og …
„Ef það er einhver upplýsingaskortur þá skapar það óánægju og fólk gerir mistök,“ segir Anna Karen. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Pólskur þýðandi og samfélagstúlkur segir mikilvægt að fólk gæti orða sinna og geri sér grein fyrir því að það sem einn einstaklingur innan samfélags, til dæmis pólskumælandi samfélagsins á Íslandi, geri skilgreini ekki hópinn í heild. Hún segir að auðveldlega verði til misskilningur þegar ekki er til nóg af upplýsingum á móðurmáli fólks en ýmis uppbyggileg vinna sé í gangi til að bæta úr því.

„Við erum um það bil 27.000 manns og það var einn einstaklingur sem var ekki að fylgjast nægilega vel með reglunum varðandi sóttkví. Þessi umræða fór aðeins of langt, til dæmis á samfélagsmiðlum,“ segir Anna Karen Svövudóttir sem nýverið hóf störf sem samskiptaráðgjafi pólskumælandi hjá heilbrigðisráðuneytinu.

„Við erum svo mörg hér, ef einhver einn gerir eitthvað þá er alltaf horft til þess að það sé öllum að kenna en það virkar ekki þannig. Við þurfum að vera meðvituð um það.“

Skilgreinir ekki heilt samfélag

Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn sagði á upplýsingannafundi almannavarna í dag að einstaklingar af erlendum uppruna sem hefðu smitast af Covid í hópsmitum hefðu lent í rasískum skilaboðum. Eins og áður hefur komið fram á hópsmit í leikskólanum Jörfa rætur sínar að rekja til þess að smitaður einstaklingur braut sóttkví við komuna til landsins.

Anna Karen ítrekar að þó að einn einstaklingur geri mistök skilgreini það ekki heilt samfélag. Hún vonast til þess að neikvæðri umræðu um fólk af erlendum uppruna í tengslum við hópsmitið sé lokið.

„Mér sýnist fólk ekki vera að draga þetta viðfangsefni áfram, þetta var bara óheppileg umræða og það er búið,“ segir Anna Karen.

„Það er erfitt að ná til allra, sumt fólk er …
„Það er erfitt að ná til allra, sumt fólk er ekki á samfélagsmiðlum, sumt fólk notar ekki einu sinni tölvu,“ segir Anna Karen. Ljósmynd/Aðsend

Á réttri leið

Komast upplýsingar frá heilbrigðisyfirvöldum, um aðgerðir og annað, nægilega vel til pólska samfélagsins?

„Við getum gert betur í þeim efnum. Ég held að íslensk stjórnvöld séu að gera góða hluti, meðal annars með því að fá pólskumælandi fólk til starfa hjá sér. Mér finnst það frábært. Við erum á réttri leið en samt er svolítið margt sem hægt er að bæta,“ segir Anna Karen og bætir við:

„Við þurfum alltaf að fylgjast með því hvernig samfélagið breytist og reyna alltaf að koma réttum upplýsingum á framfæri um stöðuna. Við þurfum að passa upp á að öllum líði vel hér á landinu, bæði Íslendingum og útlendingum. Ef það er einhver upplýsingaskortur þá skapar það óánægju og fólk gerir mistök.“

Erfitt að ná til allra

Anna Karen segir erfitt fyrir þá sem eiga annað móðurmál en íslensku að fylgjast með sífelldum breytingum á aðgerðum vegna faraldursins, bæði hér innanlands og á landamærum.

„Við reynum alltaf að uppfæra og setja nýjar upplýsingar inn en það tekur alltaf nokkra daga [fyrir þær] að komast áleiðis til fólks. Það er erfitt að ná til allra, sumt fólk er ekki á samfélagsmiðlum, sumt fólk notar ekki einu sinni tölvu. Dreifingin skiptir líka máli,“ segir Anna Karen.

Hún bendir á að falskar upplýsingar séu til víða og verði þær jafnvel til vegna misskilnings.

„Það eru alls konar Facebook-hópar þar sem fólk er að reyna að þýða sjálft en það kemur vitlaust út og það dreifist í þessum hópum. Sumir misskilja og allt þetta. Þess vegna þurfum við sem störfum hjá stofnunum að koma réttum upplýsingum á framfæri áður en villandi upplýsingar ná dreifingu. Það er mikilvægt að fólk sé ekki bara að þýða þetta sjálft því þá getur orðið til misskilningur.“

Brúin mikilvæg

Hvert er þitt hlutverk innan ráðuneytisins?

„Ég fer yfir það efni sem við eigum á pólsku og uppfæri upplýsingar, kanna hvað við þurfum að bæta, hvað er rétt og hvað ekki. Ég reyni líka að finna réttar leiðir til þess að koma upplýsingum til skila. Þá geta stofnanir í heilbrigðiskerfinu alltaf leitað til mín til að fá ráðgjöf um það hvernig er best að koma upplýsingum til Pólverja. Ég fylgist alltaf með því hvort þessar upplýsingar séu skiljanlegar,“ segir Anna Karen og bætir við:

„Sumar upplýsingar eru ekki nægilega góðar fyrir alla. Flestar upplýsingar eru fyrir samfélagið hér á Íslandi en það eru smáatriði sem við þurfum að útskýra betur fyrir hagsmunahópum. Þá er það mitt hlutverk að finna hvar við þurfum að bæta okkur í upplýsingagjöf, að finna réttar leiðir, það er mjög mikilvægt. Annars lendum við í alls konar misskilningi eins og hefur gerst. Það er ekki alltaf Pólverjum að kenna, en það er ekki alltaf heldur stofnunum að kenna. Það vantar nákvæmlega þessa brú á milli, manneskju eins og mig sem finnur leiðir, hvað vantar, hvað við þurfum að bæta og hvernig. Upplýsingaflæðið er grunnurinn að öruggu lífi og ánægju samfélagsins.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert