Yfir þrjú hundruð skjálftar á Mosfellsheiði

Upptök stóra skjálftans voru í raun undir Nesjavallavegi.
Upptök stóra skjálftans voru í raun undir Nesjavallavegi. Kort/map.is

Yfir þrjú hundruð skjálftar hafa riðið yfir frá því í nótt, sem átt hafa upptök sín á Mosfellsheiði norðaustur af Hengli. 

Stærsti skjálftinn í hrinunni til þessa varð klukkan 11.38 fyrir hádegi í dag. Fannst hann á höfuðborgarsvæðinu og vestur á Akranesi og í Hvalfirði, og austur á Laugarvatni, að sögn Bjarka Kaldalóns Friis, náttúruvársérfræðings á Veðurstofu Íslands.

„Það koma annað slagið skjálftar þarna en virknin hefur verið meiri undanfarnar tvær vikur,“ segir Bjarki í samtali við mbl.is.

Hann tekur fram að virknin sé ekki talin tengjast gosinu sem stendur yfir utar á Reykjanesskaga, né niðurdælingum við Hellisheiðarvirkjun enda hafi vatni síðast verið dælt niður á síðasta ári.

Bjarki Kaldalóns Friis, náttúruvárfræðingur á Veðurstofunni.
Bjarki Kaldalóns Friis, náttúruvárfræðingur á Veðurstofunni. mbl.is/Sigurður Bogi

Skjálftinn í stærri kantinum

Síðast varð skjálfti yfir þremur að stærð á svæðinu í nóvember á síðasta ári.

„Skjálftinn núna er í stærri kantinum fyrir þetta svæði, en þessi virkni er á sama tíma eðlileg,“ segir Bjarki.

GPS-gögn á svæðinu benda ekki til breytinga og skjálftarnir hafa flestir verið á 4-6 kílómetra dýpi.

„Við erum ekki að tala um gosóróa eða neitt slíkt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert