„Þetta er fínt en það eru alltaf svolitlar sveiflur milli daga,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir en fimm greindust með kórónuveiruna innanlands og voru allir í sóttkví við greiningu.
Alls voru tekin 1.398 sýni innanlands í gær og 405 á landamærunum. Nú eru 190 í einangrun og 572 í sóttkví. Fjórir eru á sjúkrahúsi vegna Covid-19. Alls eru 1.006 í skimunarsóttkví.
„Þetta á eftir að sveiflast milli svona upp og niður en vonandi fer þetta ekki í öfuga átt,“ segir Þórólfur og bætir við að vonandi takist að kæfa hópsmitin sem komið hafa upp á höfuðborgarsvæðinu og Suðurlandi, þó ekki sé búið að ná utan um þau.
„Það er ekki búið að ná alveg utan um þetta. Við vorum síðast í fyrradag að greina fólk utan sóttkvíar. Við höldum þessu í horfinu og höfum stjórn á þessu. Þetta gæti tekið smá tíma að fjara út, eins og í þriðju bylgjunni,“ segir sóttvarnalæknir.
Hann býst við að skila heilbrigðisráðherra minnisblaði vegna aðgerða innanlands um helgina en núgildandi reglugerð um 20 manna fjöldatakmörkun gildir til 4. maí.