Margir hagsmunahópar fyrirferðarmiklir

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri.
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri segir að fjölbreyttur hópur hagsmunaaðila, svo sem fjármálafyrirtæki og eigendur þeirra, aðilar vinnumarkaðarins, hagsmunaaðilar í viðskiptalífi, sjávarútvegsfyrirtæki og lífeyrissjóðir séu áhrifamiklir í stjórnkerfi landsins.

„Á Íslandi hefur lengi verið veikt miðstjórnarvald og löng hefð fyrir samráði við hagsmunaaðila. Oft koma góðar lausnir út úr því, en svo fylgja því skuggahliðar að hagsmunahópar fái of mikil áhrif sem séu landinu ekki til heilla,“ segir Ásgeir.

Hann þáði ekki boð Kolbeins Óttarssonar Proppé, þingmanns Vinstri grænna, um að mæta á opinn fund stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar til að ræða orð sín um áhrif hagsmunahópa í samfélaginu á stjórnkerfið, en tilefnið var viðtal seðlabankastjóra við Stundina sem birtist á dögunum, þar sem Ásgeir ræddi ítök hagsmunaaðila í löngu máli.

Í bréfi Ásgeirs til Kolbeins segir orðrétt: „Efni viðtalsins beindist einkum að því að vekja athygli á að margvíslegir hagsmunahópar eru fyrirferðarmiklir í íslensku þjóðlífi og hafa áhrif á stefnumótun, stefnu og löggjöf, til að mynda hagsmunasamtök launþega, vinnuveitenda, atvinnurekenda, lífeyrissjóðir og fleiri.“

Aðeins frá hlið bankans

Í samtali við Morgunblaðið staðfestir Ásgeir þetta og segir að hann telji sig ekki rétta manninn til að mæta á slíkan opinn fund þingnefndar til þess fara yfir áhrif utanaðkomandi aðila á störf framkvæmdavaldsins enda hafi hann einungis tjáð sig um málið út frá forsendum Seðlabankans.

Sem dæmi um ítök hagsmunaaðila nefnir hann baráttu bankans við verkalýðsfélög, er hafi viljað beita lífeyrissjóðum í kjarabaráttu. Bankinn ávítaði Lífeyrissjóð verzlunarmanna fyrr í mánuðinum fyrir að hafa ekki gætt að því að meta hæfi einstakra stjórnarmanna við undirbúning og ákvörðun um hvort sjóðurinn tæki þátt í hlutafjárútboði Icelandair í haust. Formaður VR hafði áður hvatt til þess að hlutafjárútboðið yrði sniðgengið vegna framgöngu Icelandair í kjaradeilu sinni við flugfreyjur. Fór svo að lífeyrissjóðurinn tók ekki þátt í útboðinu.

Þá nefnir Ásgeir einnig beiðni frá sjávarútvegsfyrirtækjum síðasta vor um að færa aflaheimildir yfir á næsta tímabil vegna stöðu á mörkuðum, er hefði tekið botninn undan gjaldeyrismarkaðinum í ljósi algjörs tekjufalls í stærstu útflutningsgreininni, ferðaþjónustu.

Ásgeir segir að yfirleitt sé hægt að semja við hagsmunahópa með góðum árangri. Oft sé hægt að leysa mál með samtali og gagnkvæmu trausti. Sú var til dæmis raunin þegar lífeyrissjóðirnir ákváðu að halda að sér höndum í erlendum fjárfestingum síðasta sumar en hann segir þá þar hafa sýnt mikla samfélagslega ábyrgð.

Sú staða geti þó hæglega komið upp að bankinn þurfi að beita valdheimildum sínum og ganga í berhögg við hagsmunaaðila til þess að tryggja almannahagsmuni. Því fylgi oft mikið fjaðrafok.

Ítrekar óskir um skaðleysislög

Í því skyni nefnir hann nauðsyn þess að lögfest verði ákvæði um skaðleysi fyrir starfsmenn sem framkvæma ákvarðanir og reka erindi stofnana svo ekki sé hægt að lögsækja þá sjálfa í einkamálum heldur einungis stofnunina sjálfa.

„Það er mikilvægt að starfsfólk veigri sér ekki við því að framkvæma ákvarðanir yfirstjórnar Seðlabankans, s.s. að grípa inn í rekstur fjármálafyrirtækis, vegna ótta við persónulegar málsóknir,“ segir Ásgeir. Þá segir hann misskilning felast í því að halda að með því megi ekki lögsækja starfsmenn fyrir mistök. Skaðleysisvernd nái almennt ekki til brota sem sæta opinberri ákæru.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert