Leggja til stærra hættusvæði

Virkni eldgossins hefur breyst.
Virkni eldgossins hefur breyst. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ekki hefur þótt tilefni til að endurmeta hættusvæði í kringum eldgosið í Geldingadal enn sem komið er þrátt fyrir að virkni svæðisins hafi breyst. Vísindamenn á Veðurstofunni sendu frá sér tillögu í dag um að hættusvæði yrði miðað við 500 metra radíus frá gosinu. Viðbragðsaðilar á gossvæðinu funda klukkan níu í fyrramálið.

Upp úr miðnætti í gær dró til tíðinda á gossvæðinu. Fram að því hafði virkni gossins verið nokkuð stöðug en núna breytist virknin í nokkurra mínútna lotum. „Það virðist gerast á þriggja mínútuna tímabili að virknin detti niður en svo eykst hún aftur með miklum krafti,“ segir Einar Hjörleifsson, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofunni, í samtali við mbl.is.

Fyrir vikið ná gosstrókarnir allt að 300 metra hæð þegar mest lætur, en áður voru þeir um 100 metra háir, og hætt er við því að eldtungurnar geti ógnað fólki sem stendur of nærri.

Vísindamenn eru ekki á einu máli um hvað veldur þessari breyttu virkni eða hverjar afleiðingar hennar verða. Í samtali við mbl.is fyrr í dag sagði Magnús Tumi Guðmundsson jarðeðlisfræðingur að erfitt væri að segja til um það hvort þetta væri fyrirboði þess að draga myndi úr virkni gossins eða ekki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert