Flugnám tekur á loft á ný á Íslandi

Covid-19 hefur vængstýft flugnám á Íslandi síðustu misseri.
Covid-19 hefur vængstýft flugnám á Íslandi síðustu misseri. mbl.is

Nemum í flugnámi hefur fækkað síðustu ár. Gjaldþrot WOW air og áhrif kórónuveirunnar hafa haft mikil áhrif á aðsóknina í flugnám, en nú glittir í endalokin á raunum flugskólanna sem hafa þurft að laga sig að nýjum aðstæðum. „Nú horfir til betri vegar með bólusetningar og við horfum bjartsýnir fram á veginn,“ segir Matthías Arngrímsson, skólastjóri Flugskólans Geirfugls.

Námsaðstæður flugnema hafa tekið nokkrum breytingum á síðasta ári, líkt og hjá námsmönnum á flestum sviðum. „Covid olli okkur líka töluverðum vandræðum með fjölda nemenda í kennslustofu hvað varðar námskeiðahald,“ segir Matthías um námsaðstæður. Einnig þurfti að stöðva alla kennslu í að minnsta kosti þrjú skipti. Námið heldur samt sem áður áfram, þó með ýmsum skilyrðum eins og grímunotkun nemenda og kennara.

Liggur í loftinu að flugnám taki við sér

Búist er við að umsóknum í flugnám muni fjölga á næstu árum. Í svari Flugakademíunnar við fyrirspurn mbl.is telja forsvarsmenn hennar að þeir greini aukinn áhuga erlendra framtíðarflugmanna á að stunda flugnám á Íslandi. „Það hefur mikið áunnist á undanförnum árum og hefur Flugakademían á að skipa tæknivæddum flugflota með bestu flugmælitækjum sem völ er á,“ segir í svari Flugakademíunnar.

Báðir flugskólarnir telja að spurn eftir flugferðum til og frá Íslands muni brátt færast í fyrra horf. Flugakademían bendir á að samkvæmt nýjum rannsóknum muni jafnvel skorta flugmenn í Evrópu næstu árin.

Gosið í Geldingadölum hefur haft sáralítil áhrif á flugnámið, að sögn Matthíasar. „Flugnám fer venjulega ekki fram yfir eldgosum og er þess vegna alveg óviðkomandi náminu. Hins vegar hafa nemendur og kennarar skiljanlega viljað renna þarna yfir einu sinni og svo heldur flugnámið áfram eins og áður.“ Svipaða sögu er að segja hjá Flugakademíunni, en Flugakademían telur að þetta veiti nemendum góða þjálfun fyrir möguleg framtíðarstörf þeirra í útsýnis- og ferðamannaflugi.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka