Þórólfur Guðnason segir sennilegt að þegar bólusetningu forgangshópa lýkur verði ekki bólusett eftir aldurshópum heldur verði fólk boðað tilviljanakennt í bólusetningu. Nú hafa elstu aldurshóparnir sem voru í forgangi í bólusetningu gegn Covid-19 fengið slíka og gengur vel að bólusetja aðra forgangshópa.
Hefur verið tekin ákvörðun um það hvernig forgangsröðunin verður eftir að forgangshópar hafa verið bólusettir?
„Það er svolítið í það. Við munum sennilega ekki raða niður eftir aldurshópum heldur bólusetja tilviljanakennt, boða fólk í bólusetningu þannig,“ segir Þórólfur í samtali við mbl.is.
Eins og mbl.is greindi frá í síðustu viku sýna ný hermilíkön þriggja vísindamanna Íslenskrar erfðagreiningar að hjarðónæmi hefði náðst hraðar á Íslandi ef bólusett hefði verið í hækkandi aldursröð í miðri þriðju bylgju faraldursins, en ekki lækkandi aldursröð eins og síðan var gert. Einnig myndi hjarðónæmi nást hraðar ef bólusett hefði verið af handhófi á sama tíma.
Bólusetning fólks með undirliggjandi sjúkdóma stendur nú yfir en þar er kallað inn eftir sjúkdómum, ekki aldri.
„Þannig að það verður nokkuð tilviljanakennt í sambandi við aldurinn. Þannig verður það líka þegar t.d. kennarar og fólk í félagsþjónustunni verður kallað inn; það verður ekki aldursskipt, það verður ekki farið í elsta aldurshópinn og niður heldur verður það nokkuð tilviljanakennt. Við munum reyna að slá tvær flugur í einu höggi; það er að segja að ná einstaklingunum sem eru í forgangi og á sama tíma að vinna eins vel í hjarðónæminu og mögulegt er,“ segir Þórólfur.
Aðspurður segist hann vona að bólusetningu forgangshópa ljúki á næstu vikum.
„En þetta stendur allt og fellur með því hversu mikið bóluefni við fáum. Við erum ekki búin að fá dreifingarlistann frá AstraZeneca fyrir maí og júní þannig að nú erum við að nota Pfizer mest. Vonandi förum við að fá meira bóluefni frá hinum á næstunni.“
Líða fer að annarri bólusetningu fólks sem fékk fyrsta skammtinn af bóluefni AstraZeneca en er nú ekki í þeim hópi sem bóluefnið er ætlað. Þetta fólk mun geta valið að fá aftur AstraZeneca en að öðrum kosti skammt af öðru bóluefni.